Tíu lygnir landráðamenn

Ég gerði þennan texta hér að neðan í desember í fyrra þegar Imba Solla og Geir Hordeli sátu við stjórnvölinn, eða lágu öllu heldur, sofandi svefni hinna réttlötu á sínu græna eyra. Lítið hefur breyst síðan þá, nema hvað nú sefur stjórnin svefni hinna réttlátnu á sínu Vinstri græna eyra.

 

rikisstjornin_i_skyjunum_851754.jpg"Skjaldborgin" sem ríkisstjórnin lofaði að slá um heimili landsins eftir pottlokabyltinguna reyndist því miður spilaborg rétt einsog bankarnir, sem stjórnin hinsvegar leggur allt kapp á að slá skjaldborg um. Sjálf lifir stjórnin í skýjaborg, fjarri raunveruleikanum og hótar því fólki öllu illu sem hvorki getur borgað af lánum sínum né kærir sig um að reyna að slökkva útrásareldana með blóði sínu. Stjórnin er jarðsambandslaus, alveg í skýjunum. Ground control to major Dumb!!!

 

flóttavíkingur_part_1_851755.jpgÚtrásargarparnir, sem voru svo örlátir á fé til stjórnmálamanna, ganga skiljanlega ennþá lausir, aldrei hamingjusamari. Reyndar eru þeir sumir farnir að flýja land á venjulegum Icelandair vélum (enda vanir öllum "vélum") á monkey class til að bæta ímyndina, en þeir og þeirra fjölskyldur hafa engu að síður ekki undan að spæna í sig rándýru loðfílakjöti og risaeðlueggjum og steypa í sig úrvals kampavíni og greifast villt og galið þegar út er komið.

 

Ég las einhverstaðar að bankahrunið íslenska væri stærsta gjaldþrot veraldarsögunnar frá upphafi - frá því að maðurinn steig fyrst niður úr trjánum. (Kannski að við Íslendingar ættum að flytja þangað aftur?). Íslensk viðskiptasnilld mun semsé fara í Heimsmetabók Guinnes og þá líklegast einnig það afrek að þeir sem eru "grunaðir" um stórglæpinn skulu ekki ennþá hafa verið teknir svo mikið sem í 25 kerta ljósaperu yfirheyrslu. Það hlýtur bókstaflega að vera heimsmet í blábjánahætti.

 

Hvað um það. Þetta lag, Tíu lygnir landráðamenn, ætlar Serðir Monster vinur minn að vera með á plötu sinni "Tekið stærst uppí sig" sem kemur út í haust. Lagið má finna í tónlistarspilaranum hér til vinstri á síðunni.

 

 

flóttavíkingur_part_2_851758.jpgTíu lygnir landráðamenn

 

Tíu lygnir landráðamenn

létu þjóð fá klígju.

Einn þaut í einkaþotu burt

og þá voru eftir níu.

 

Níu sekir ráðherraræflar

reyndu að leita sátta.

Einn þeirra sprakk úr spillingu.

Hvenær springa hinir átta?

 

Átta sofandi eftirlitsbjánar

umluðu mö mö mö.

Einn þeirra sofnaði svefninum langa.

Þá sváfu eftir sjö.

 

Sjö bústnir bankaþjófar

brugðu sér inná Rex.

Einn var tekinn og barinn í buff,

bólgnir voru sex.

 

Sex rotnir kaupréttarkálfar

kunnu þjófstartstrimm.

Einn þeirra flúði til Öfganistan,

og eftir sátu fimm.

 

flóttavíkingur_part_3_851762.jpgFimm svikulir útrásarasnar

ætluðu að verða stórir.

Einn sökk í miðja milljarðahít,

því miður sluppu fjórir.

 

Fjórir gráðugir glæpamenn

grilluðu landsins kýr.

Einn þeirra át yfir sig

og eftir voru þrír.

 

Þrír óhæfir alþingisstrumpar

ákaft hylltu Geir.

Af lotningu leið yfir einn,

og eftir voru tveir.

 

Tveir geislaBaugsmenn í banka

brytjuðu gögn sem einn.

Annar tróð sér í tætara,

á tánum var þá einn.

 

Einn hryðjuverkavibbi

vildi komast heim.

En ekki hafa áhyggjur,

það er víst nóg af þeim.

 

 

Stormsker: Söngur, bakraddir, píanó, kassagítarar, trommur, bassi, orgel, synthi og rafmagnsgítarar.

Upptakari: Snorri Snorrason idolstjarna.

Mixarar: Snorri og Stormsker.

(Baggalúti þakka ég innspírasjónina).


mbl.is Rannsakar Glitni nú en áður Saddam
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Lifi fjalldrapinn!

Ásgeir Rúnar Helgason, 22.5.2009 kl. 12:55

2 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Góooooooooooooooooooður - nú þurfum við bara að sannfæra kvikmyndaframleiðendur í USA um að gera "nokkrar stórmyndir" tengt íslenskum útrásar skúrkum - þessar myndir yrðu teknar upp hérlendis og myndu koma Íslandi á KORTIÐ sem spilltasta land í öllu STJÖRNUKERFINU, ef frá er talin pláneta 69A.  Hókus-pókus all the money is gone honey - better believe it - those mother f**kers are not going to pay a dime...!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 22.5.2009 kl. 13:00

3 identicon

Heill og sæll; Sverrir - líka, sem aðrir þeir, hverjir geyma síðu hans, og brúka !

Þakka þér; afbragðs góða samantekt hér - svo og braginn, sem í niðurlagi fylgdi, ágæti skáldmæringur.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:05

4 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ásgeir. Ef ég vissi hvað "fjalldrapi" væri þá myndi ég örugglega líka hrópa: "Lifi fjalldrapinn!" En ég verð víst bara að láta mér nægja að hrópa: "Lifi fjallaapinn, sem og aðrir Íslendingar!"

Sverrir Stormsker, 22.5.2009 kl. 13:34

5 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jakob Þór. Ég held að Ísland sé nú þegar komið á kortið og almennt viðurkennt sem spilltasta ríki þessarar jarðar og þótt víðar væri leitað. En við getum jú alltaf á okkur blómum og krönsum bætt. Og bíómyndum. Það minnir mig á Óskarinn:

Óskar. Þakka þér.

Sverrir Stormsker, 22.5.2009 kl. 13:53

6 Smámynd: Ómar Ingi

Always Good U are SS

Ómar Ingi, 22.5.2009 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband