Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
28.5.2009 | 12:18
Munurinn á stjórnmálamönnum og almennum borgurum
Þessa hryllingssögu sagði amma mér þegar ég var á viðkvæmasta aldri. Eitthvað um fertugt. Þess má geta til fróðleiks, þó það komi sögunni ekki beint við, að hún vann lengst af við þjónustustörf á hinum ýmsu götuhornum stórborganna og var vel rið...liðin af öllum sem til hennar leituðu.
Ég hafði spurt ömmu gömlu: "Amma gamla, er einhver svo mikill munur á stjórnmálamönnum og okkur, þessum svokölluðu almennu borgurum? Ég meina, eru þeir ekki líka fólk? " Amma setti upp vandlætingarsvip og hristi hausinn einsog ég væri orðinn eitthvað geðveikari en venjulega og jafnvel á leiðinni inná þing. Svo varð hún íbyggin á svip, strauk sér um ósnyrt skeggið og plokkaði flatlýs uppúr nærbuxunum sem hún kramdi annarshugar milli fingranna. Loks tók hún til máls og sagði mér eftirfarandi sögu:
Dag einn fór prestur til rakarans. Eftir klippinguna spurði hann hvað hann ætti að borga mikið og rakarinn svarar:
"Ég get ekki fengið af mér að taka við peningum frá heilögum ríkisstarfsmanni - himnaríkisstarfsmanni. Sumir segja að þið séuð atvinnulygarar og skíthausar en það er guð einn sem dæmir að endingu. Ég gaf þér klippingu við hæfi. Allt í boði hússins."
Presturinn þakkar kærlega fyrir sig og fer sína leið. Daginn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu sér hann hvar þakkarkort liggur við dyrnar og nokkrir kassar af þrælsterku messuvíni og heilu pokarnir af oblátum með paprikubragði.
Stuttu síðar kemur lífvörður hans hátignar, Ólafs Ragnars, í klippingu. Hann er með afar langan haus, einsog lífverðir af gamla skólanum eru yfirleitt með, og býst því við að þurfa að borga einhverja reiðinnar býsn. Eftir þessa líka fínu herraklippingu spyr lífvörðurinn hvað hann eigi nú að borga margar milljónir flotkróna fyrir herköttið. Rakarinn svarar:
"Þó að svínaflensuna megi kannski rekja til Óla grís þá er Ólafur konungur hreinn dýrð...dýrlingur og ég kann ekki við að þiggja peninga af manni sem er í þjónustu hans hátignar. Ég ætla ekki að svína á þér. Þú færð þetta frítt."
Lífvörðurinn þakkar pent fyrir sig og gengur hamingjusamur á braut. Þegar rakarinn mætir til vinnu daginn eftir bíður hans þakkarkort við dyrnar og heill haugur af fálkaorðum og stórriddarakrossum.
Stuttu síðar birtist hagfræðiprófessor með stærðar skalla sem minnti á gatið á ósónlaginu. Þrjú einmanaleg hár stóðu uppúr hausnum á honum einsog kaktusar í eyðimörk.
"Fá hjá þér eina kótelettuklippingu," segir spekingurinn.
"Einmitt. Þú ert akkúrat með hráefnið sem þarf í væna kótelettu. Þrjú ýlustrá. Ekki málið," segir kraftaverkalæknirinn og fer að klippa og klippa einsog hann eigi lífið að leysa þannig að það er einsog 10 skæri séu á lofti samtímis. Eftir hamaganginn spyr prófessorinn hvað hann eigi nú að borga honum margar alíslenskar fallnar flotkrónur fyrir áreynsluna. Rakarinn svarar:
"Þú ert illa launaður kallinn minn og ég hef ekki brjóst í mér til að vera að taka við peningum af aumingjum og vesalingum sem kunna ekki að telja upp að þremur. Þar að auki ertu með jafn lítið á hausnum og í honum svo þetta er ekkert mál. Þetta er ókeypis."
Prófessorinn klökknar af þakklæti og gengur bljúgur á dyr. Morguninn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu bíður hans þakkarkort við innganginn og heilu raðirnar af bráðnauðsynlegum fróðleiksbókum einsog t.d: "How to Improve Your Business," "Becoming More Successful" og "How to Rape a Nation Without Breaking Your Dick" o.s.fr.
Stuttu síðar sest stjórnmálamaður í stólinn og hann fær þessa líka skínandi fínu mafíósaklippingu. Stjórnmálamaðurinn brosir breitt þannig að skín í blóðrauðar vígtennurnar og þegar hann spyr hvort hann neyðist ekki til að borga eitthvað fyrir þetta, segir rakarinn:
"Heyrðu elsku vinur, þú ert að vinna óeigingjarnt og stórkostlegt starf fyrir okkur smælingja þessa lands. Þú hugsar aldrei um eigin hag heldur aðeins þjóðarhag. Þú hefur harðsoðið fjöregg þjóðarinnar í hendi þér og vinnur fórnfúst starf sem þjónn almennings og ég get ekki fengið af mér að rukka slíkt erkifí...slíkan erkiengil."
Stjórnmálamaðurinn brosir allan hringinn, hoppar uppúr stólnum af kæti og hraðar sér út. Morguninn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu sér hann hvorki þakkarkort né gjafir við dyrnar einsog svo oft áður heldur einungis langa biðröð af stjórnmálamönnum.
Amma gamla sagði að þetta væri grundvallarmunurinn á stjórnmálamönnum og almennum borgurum.
Bloggar | Breytt 29.5.2009 kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
25.5.2009 | 11:24
Menn valda ekki valdinu
Það er skrítið með mannskepnuna, það er einsog hún megi ekki fá smá völd í hendur án þess að ganga alveg af göflunum. Hitler, Stalin, Mussolini og Hussein og þessir séntilmenn allirsaman voru í grunninn ekkert verri menn en gengur og gerist þó þeir hafi kannski ekki beint verið sligaðir af kristilegri samvisku, en þegar þeir komust til valda þá umhverfðust þeir gjörsamlega og fóru að munda kjötsaxið. George W. Bush var hinsvegar fæðingarhálfviti og kristnari en guð og ekki tækur í þessu sambandi, enda tilheyrir hann jurtaríkinu.
Gamli frasinn: "Vald spillir og alræðisvald spillir algerlega," er örugglega ekkert nema sannleikur. Þó að íslenskir forsætisráðherrar hafi ekki verið miklir og merkilegir fjöldamorðingjar þá held ég að það sé mjög áríðandi að þeir sitji ekki lengur en í 8 ár, sama hversu góðir þeir eru. Dabbi átti t.d. bara að sitja í tvö kjörtímabil og standa þá upp og segja: "Þetta er orðið alveg ágætt hjá mér. Best að hætta á toppnum. Þjóðin er orðin góðærð og feit og fín og ég er kominn með rasssæri og meinsæri og sieg-hælsæri og nú pakka ég saman öllum mínum bláu hönskum og bláu spólum og fæ mér vinnu í Bónus. Ég er farinn í klippingu, þá fyrstu í 20 ár. Bless."
Postulínsdúkkurnar á Bessastöðum eiga sömuleiðis ekki að sitja lengur en í 8 ár. Menn verða værukærir og missa allt jarðsamband og gleyma sér í rjómatertusmjatti, sjálfsdekri og gleiðgosahætti. Í viðtali sem ég átti við Ólaf Ragnar rétt áður en hann varð kóngur sagði hann einmitt að forsetinn ætti ekki að sitja lengur en tvö kjörtímabil og að hann myndi allsekki sitja lengur en 8 ár næði hann kjöri. Það skemmtilegasta við Ólaf er að sannleikurinn er aldrei neitt að þvælast fyrir honum þegar hann talar. Uppáhalds Stuðmannalagið hans er að sjálfsögðu "Bara ef það hentar mér."
Um þessar mundir er enn einn dvergurinn að gera sig breiðan og stóran, Kim Wrong Ilsig í Norður Kóreu. Það er búið að fara lengi í taugarnar á honum að honum skuli aldrei vera boðið í alheimspartýin með stóru köllunum og finnst að það sé litið niður á sig á alþjóðavettvangi. Auðvitað er litið niður á dverga. Ekki annað hægt. Þetta er stubbur. Hann var ekki einusinni hár í skóla, frekar en annarsstaðar. Hann getur ekki vaxið neinum yfir höfuð enda vex hann ekki yfir höfuð. Og hvað tekur hann þá til bragðs? Jú, fer að drullumalla kjarnorkusprengjur og reynir að gera heiminn hræddan við sig. Alveg dæmigert fyrir smáborgara.
Roll over...
Ef Hitler sæi þann hrylling sem nú er á döfinni,
þann hörmungar kjarnorkuviðbjóð sem við höfum lært,
þá mynd´ann vafalaust snúa sér við í gröfinni;
sér velta á hina hliðina´og sofna vært.
(Úr ljóðabók minni "Með ósk um bjarta framtíð," 1997).
N-Kórea harðlega gagnrýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.5.2009 | 14:37
Þjóðin var myrt en enginn drap hana
Ólafur Þór Hauksson ber titilinn "sérstakur saksóknari" sem hlýtur að vera vísun í það að hinir séu ekkert sérstakir. Fyrst núna, um hálfu ári eftir hrunið, er loksins farið að róta í einhverjum löngu tæmdum skúffum og sótthreinsuðum líkskápum og yfirheyra einhverja dúdda og myglusveppi. Hvað þarf að gerast til að það vakni "rökstuddur grunur" um að eitthvað sé ekki alveg einsog það á að vera?
Þegar hundruð milljarða voru selfluttir úr Ice"save" út í buskann, vaknaði þá aldrei "rökstuddur grunur" um að eitthvað pínulítið spúkí hlyti nú að vera í gangi? Réttlætti sá gjörningur ekki að taka forsvarsmenn þessa undarlega kompanís til yfirheyrslu? Menn eru settir í gæsluvarðhald af ca milljón sinnum minna tilefni.
Þegar Bretar settu hryðjuverkalög á Landsbankann í kjölfarið, vaknaði þá aldrei örlítill vottur af "grun" um að það gæti nú hugsanlega verið einhver ástæða fyrir því, fyrir utan timburmenn Gordons Gin Brown? (Gauð Haarde þorði náttúrulega aldrei að lyfta upp tólinu til að komast að því sjálfur).
Þegar stórfurðuleg viðskipti Ólafs Ólafssonar og Kaupþings við einhvern sjeikí Arabíu-Lawrence og hundruð milljarða tilfærslur komu fram í dagsljósið, (viðskipti sem Ólafur sagðist hafa átt við hann til að græða örugglega ekki eina krónu á þeim sjálfur), þurftu þá að líða margir mánuðir þangað til einhver sagði: "Vitiði strákar, ég hef það einhvernveginn á tilfinningunni að það sé ekki alveg allt með felldu í sambandi við þetta dæmi, þrátt fyrir að það hafi verið Dabbi djöfull sem sendi okkur bréfið um að Kaupþing starfaði líklega ekki alveg eftir reglum himnaríkis."
(Merkilegt að búsáhaldartrommuleikurunum skyldi aldrei hafa dottið í hug að ónáða neina af útrásarhetjunum. Davíð skyldi hinsvegar böggaður úr Seðlabankanum með eggjakasti og sprengingum hvað sem tautaði og raulaði, enda væri þar á ferðinni einhver sá alhættulegasti maður sem jarðarkringlan hefði alið. Hann var THE most wanted asshole of the planet - dead or alive - dead or a stonedead - í nafni Guðs, sonar og heilags Baugs. Það yrði bókstaflega að fá norskan farandhagfræðing í hans stað til að hækka stýrivextina til himnaríkis. Þá myndi allt komast í himnalag, ég tala nú ekki um ef jarðfræðingurinn og íþróttafréttamaðurinn Steingrímur J. yrði fjármálaráðherra og flugfreyjan Jóhanna yrði forsætisráðherfa. Þá væri okkur endanlega borgið. Segir sig sjálft. Enda er allt í orden í dag, einsog sést).
Þegar eitt stykki land fer á hvínandi kúpuna, vaknar þá virkilega ekki nægilega "rökstuddur grunur" um að eitthvað sé nú bogið við þetta mambó alltsaman sem réttlætir að taka þá engla í smá spjall sem líklega hafa nú ekki allt of hreina vængi á bakinu, fyrr en hálfu ári eftir að allt fór til helvítis? Ég hef ansi sterkan og "rökstuddan grun" um að Jón Jónsson væri kominn í dýflissu samdægurs ef minnsti grunur léki á að hann hefði stolið nokkrum íslenskum flotkrónum úr spreðigleðibönkum útrásarhöfðingjanna.
Unnið úr leitinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.5.2009 | 12:41
Tíu lygnir landráðamenn
Ég gerði þennan texta hér að neðan í desember í fyrra þegar Imba Solla og Geir Hordeli sátu við stjórnvölinn, eða lágu öllu heldur, sofandi svefni hinna réttlötu á sínu græna eyra. Lítið hefur breyst síðan þá, nema hvað nú sefur stjórnin svefni hinna réttlátnu á sínu Vinstri græna eyra.
"Skjaldborgin" sem ríkisstjórnin lofaði að slá um heimili landsins eftir pottlokabyltinguna reyndist því miður spilaborg rétt einsog bankarnir, sem stjórnin hinsvegar leggur allt kapp á að slá skjaldborg um. Sjálf lifir stjórnin í skýjaborg, fjarri raunveruleikanum og hótar því fólki öllu illu sem hvorki getur borgað af lánum sínum né kærir sig um að reyna að slökkva útrásareldana með blóði sínu. Stjórnin er jarðsambandslaus, alveg í skýjunum. Ground control to major Dumb!!!
Útrásargarparnir, sem voru svo örlátir á fé til stjórnmálamanna, ganga skiljanlega ennþá lausir, aldrei hamingjusamari. Reyndar eru þeir sumir farnir að flýja land á venjulegum Icelandair vélum (enda vanir öllum "vélum") á monkey class til að bæta ímyndina, en þeir og þeirra fjölskyldur hafa engu að síður ekki undan að spæna í sig rándýru loðfílakjöti og risaeðlueggjum og steypa í sig úrvals kampavíni og greifast villt og galið þegar út er komið.
Ég las einhverstaðar að bankahrunið íslenska væri stærsta gjaldþrot veraldarsögunnar frá upphafi - frá því að maðurinn steig fyrst niður úr trjánum. (Kannski að við Íslendingar ættum að flytja þangað aftur?). Íslensk viðskiptasnilld mun semsé fara í Heimsmetabók Guinnes og þá líklegast einnig það afrek að þeir sem eru "grunaðir" um stórglæpinn skulu ekki ennþá hafa verið teknir svo mikið sem í 25 kerta ljósaperu yfirheyrslu. Það hlýtur bókstaflega að vera heimsmet í blábjánahætti.
Hvað um það. Þetta lag, Tíu lygnir landráðamenn, ætlar Serðir Monster vinur minn að vera með á plötu sinni "Tekið stærst uppí sig" sem kemur út í haust. Lagið má finna í tónlistarspilaranum hér til vinstri á síðunni.
Tíu lygnir landráðamenn
létu þjóð fá klígju.
Einn þaut í einkaþotu burt
og þá voru eftir níu.
Níu sekir ráðherraræflar
reyndu að leita sátta.
Einn þeirra sprakk úr spillingu.
Hvenær springa hinir átta?
Átta sofandi eftirlitsbjánar
umluðu mö mö mö.
Einn þeirra sofnaði svefninum langa.
Þá sváfu eftir sjö.
Sjö bústnir bankaþjófar
brugðu sér inná Rex.
Einn var tekinn og barinn í buff,
bólgnir voru sex.
Sex rotnir kaupréttarkálfar
kunnu þjófstartstrimm.
Einn þeirra flúði til Öfganistan,
og eftir sátu fimm.
ætluðu að verða stórir.
Einn sökk í miðja milljarðahít,
því miður sluppu fjórir.
Fjórir gráðugir glæpamenn
grilluðu landsins kýr.
Einn þeirra át yfir sig
og eftir voru þrír.
Þrír óhæfir alþingisstrumpar
ákaft hylltu Geir.
Af lotningu leið yfir einn,
og eftir voru tveir.
Tveir geislaBaugsmenn í banka
brytjuðu gögn sem einn.
Annar tróð sér í tætara,
á tánum var þá einn.
Einn hryðjuverkavibbi
vildi komast heim.
En ekki hafa áhyggjur,
það er víst nóg af þeim.
Stormsker: Söngur, bakraddir, píanó, kassagítarar, trommur, bassi, orgel, synthi og rafmagnsgítarar.
Upptakari: Snorri Snorrason idolstjarna.
Mixarar: Snorri og Stormsker.
(Baggalúti þakka ég innspírasjónina).
Rannsakar Glitni nú en áður Saddam | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.6.2009 kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.5.2009 | 14:31
Viðtal mitt við Júrótröllið Johnny Logan
Enginn hefur oftar unnið Eurovision en írski söngvarinn Johnny Logan. Alls þrisvar sinnum. Það met verður seint slegið. Ég tók fyrst almennilega eftir því hvað kallinn var helvíti góður söngvari þegar hann bauð okkur Júróförunum í lítið partý ´88 og tók þar nokkur lög. Brilleraði gjörsamlega.
Þann 23. maí í fyrra hitaði ég upp fyrir Johnny á Hótel Íslandi. Hann hafði óskað sérstaklega eftir því við tónleikahaldarann Daníel Birgisson. Ég átti stutt viðtal við Johnny niðrí búningsherbergi áður en ég fór á sviðið og eftir spjallið var smellt af okkur þessum ágætu hryllingsmyndum. Ég ætlaði að birta þetta viðtal í einhverju blaði í fyrra en það varð ekkert úr því. Læt það flakka núna þar sem Júróið er nú í algleymingi. Þó þetta hafi kannski verið soldið skrítið viðtal þá fór það mjög friðsamlega fram. Svona er viðtalið orðrétt:
Hefur þér aldrei dottið í hug að nútímavæða nafnið þitt á tölvuöld og kalla þig Johnny Login?
Nei en ég hef kallað sjálfan mig mörgum öðrum nöfnum."
En Johnny Low-Gang?
Nei, en ég hef kallað sjálfan mig Jenny Loganawitch."
Það myndi ég líka gera ef ég væri kynskiptingur. Ef þú þyrftir að breyta nafni hljómsveitarinnar hvort myndir þú þá velja nafnið Johnny and the Silver Beatles eða Johnny and the Golden Shower, nú eða Johnny and the Low-Gang?
Myndi ekki hvarfla að mér að breyta nafninu."
Ef þú sæir Heather Mills (fyrrum eiginkonu McCartney´s) á götu hvort myndir þú ganga að henni og hvísla í eyrað á henni: Hold me now," eða saga af henni heila fótinn og berja hana með honum?
Spyrja hana Why?"
Samdirðu lagið What´s Another Air" til uppblásinnar dúkku?
Það heitir reyndar "What´s Another Year" og Shay Healy samdi það."
Nú ert þú gagnkynhneigður held ég og mikið fyrir fallegar heilvita stelpur, en hvernig kanntu hinsvegar við femínista?
Ekkert vandamál."
Jú, þeir eru reyndar vandamál, en finnst þér Eurovisionkeppnin vera hommalegri núna en hún var þegar þú tókst þátt í henni síðast fyrir rúmum 20 árum?
Nei."
Finnst þér að hún mætti vera ennþá hommalegri en hún er núna?
Nei, ég sá hana aldrei í þessu ljósi."
Finnst þér að það eigi að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í keppninni að allir karlkyns flytjendur séu saurþjöppur?
Nei, bara að þeir séu færir um að syngja."
Hvað heitir félagsmálaráðherra Albaníu?
Ekki minnstu hugmynd."
Hvort heldur þú að skipti meira máli í dag í Eurovision, gott lag eða flott show?
Gott lag."
Grætirðu af hrifningu þegar þú heyrir nýja íslenska lagið með Eurobandinu eða missirðu trúna á mannkynið?
Bara ánægður með að þau skyldu hafa komist upp úr forkeppninni."
Afhverju ertu viss um að íslenska lagið muni hafna á botninum? Er það vegna þess að söngvarinn vill vera í botnunum?
Hef ekki hugsað út í það."
Hvort myndir þú vilja að Osama bin Laden héldist á lífi í 4 ár í viðbót eða að George W. Bush sæti enn eitt kjörtímabilið?
Drepa þá báða og láta hyldýpið leysa málið."
Heldurðu að þjóðríki einsog Vestmannaeyjar gæti einhverntíma átt smugu á að vinna Eurovision?
Veit ekki alveg um hvað þú ert að tala."
Þú hefur greinilega fengið 10 í landafræði. Með kommu á milli. Hvað hefurðu lært í mörg ár á munnhörpu og túbu?
Ég spila í rauninni á hörpu, ekki á túbu."
Finnst þér að dvergar ættu að hafa sömu mannréttindi (human rights) og fullvaxta fólk?
Nei, meiri, og ekki bara rights heldur lefts."
Kemur það oft fyrir að kellingar hendi nærbrókunum sínum og hótellyklinum uppá svið þegar þú ert að skemmta?
Ekki nógu oft."
En þegar það gerist hvort þefar þú þá af nærbrókunum og kastar þeim með hryllingi út í sal aftur, eða stingur þeim innan á þig og þefar af þeim þegar þú kemur upp á hótelherbergi?
Hvorugt."
Hefur það komið fyrir að gamlir sveittir feitir og fúlskeggjaðir vörubílstjórar hafi fleygt nærbuxunum sínum upp á svið?
Ekki beinlínis."
En þegar það gerist hvort hefur þú þá þefað af bremsuförunum á sviðinu og stungið nærbrókunum inn á þig eða bara stungið þeim strax inná þig og þefað af þeim þegar þú hefur verið kominn uppá hótelherbergi?
Hvorugt svo ég muni."
Svo þú munir? Einmitt. Hvort semur þú lögin þín á sekkjapípu eða hermannalúður?
Á píanó."
Hefurðu einhverntíma fengið svo mörg egg og tómata í hausinn á tónleikum að þú hafir pælt alvarlega í því að opna matvöruverslun?
"Ég hef aldrei fengið neitt svona í hausinn."
En múrsteina?
"Nei, aldrei."
Hvað hefurðu þá fengið í hausinn?
"Ég hef aldrei fengið neitt svona í hausinn?"
Ertu alveg viss? Þú ert semsagt bara fæddur svona? En hver er frægasti homminn sem þú hefur hitt fyrir utan söngvarann Boner í U2?
Elton John."
Veistu hversu margir erlendir söngvarar hafa verið skotnir í vömbina með afsagaðri haglabyssu á Íslandi sem spila ekki réttu lögin fyrir fólkið?
Gomma."
Heldurðu að þú náir upp góðri stemningu á Hótel Íslandi eða áttu von á því að vera spreyaður með táragasi og fjarlægður með lögregluvaldi?
Ég held að hvorugt muni gerast. Get ég átt von á því?"
Já, ef ert eitthvað ósáttur við íslenskt verðlag. Passaðu þig bara á að vera ekki með neitt múður á milli laga.
Ókey, ég skal passa mig á því."
Hvar léstu sauma þessa hárkollu sem þú ert með?
"Þetta er ekta."
Ekta hárkolla?
"Nei, ekta hár."
Einmitt. Þú ert flottur brandarakarl. Hvort ætlarðu að syngja eða vera með stand up show í kvöld?
"Ég er söngvari."
Einmitt. Og ég er Spiderman. Þakka þér fyrir spjallið. Viltu ljúga einhverju meiru svona í lokin?
"Ég bara vona að allir skemmti sér vel í kvöld."
Þú vonar það já. Er þetta óraunsæi meðfætt eða þarf maður að hafa mokað í sig smjörsýru? Þú þarft ekki að svara þessu. Ég fer núna á sviðið og þú heldur bara áfram að lifa í voninni kúturinn minn. Þakka þér aftur fyrir spjallið. Ertu ekki bara annars happy?
"Jú jú, ég er mjög hamingjusamur."
Gott. Ég vildi að eg gæti sagt það sama um fólkið sem mun hlusta á þig á eftir. Vertu blessaður.
"Blessaður."
Vertu blessaður. Blessaður, blessaður, blessaður, blessaður.
"Blessaður."
Vertu alveg hreint margblessaður í bak og fyrir.
"Já, takk. Vertu sæll."
Ég veit það nú ekki. Ég er að fara að hlusta á þig á eftir.
Við semsagt kvöddumst svona vel og vandlega og hittumst svo aftur klukkutíma síðar og fengum okkur í glas.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
11.5.2009 | 17:43
Jóhanna Guðrún í gardínuafgöngum frá helvíti
Þegar maður skoðar sígaunalarfana sem Jóhanna Guðrún ætlar að pínast í á Júróvisjón sviðinu annað kvöld þá fer ekki á milli mála að það er kreppa á Íslandi. Algjört hrun, á öllum sviðum. Var virkilega ekki til neitt skárra í Kolaportinu en þessir fáránlegu samansaumuðu þvottapokar? Hvaða handrukkari þröngvaði henni eiginlega í þennan ófögnuð? Annþór? Magabeltið er svo vandlega hert að henni að það er einsog bjórvömbin sé á leiðinni uppúr brjóstahaldaranum.
Mér finnst að vel vaxin blaðra einsog Jóhanna eigi ekki að klæða af sér kynþokkann. Jóhanna, sem hefur þessar líka fínu bollur, (sjá mynd til vinstri), lætur ekki einusinni sjást í skoruna. Hvorki að framan né að aftan einsog sexý pípari. Ég er ekki að segja að það sé dauðasök en það er ekki alveg nógu hressandi. Þetta væri náttúrulega ókey ef hún væri í laginu einsog jólatré en nú vill svo til að þetta er rennileg skonsa og rennilegar skonsur eiga að nota það sem guð gaf þeim, og hvað er það besta sem guð gaf almennilegum konum? Jú, fegurð og kynþokka. That´s it. Ef þær væru ekki sætar og ísmeygilegar þá hefðum við karlaparnir ekkert við þær að tala og værum bara að drullupumpast hvor á öðrum villt og galið einsog fangar og mannkynið myndi þurrkast út.
Ruslana hefði aldrei náð fyrsta sætinu ef hún hefði verið í ruslatunnupoka á sviðinu á sínum tíma. (Sjá víbratormyndina af henni hér til hægri). Röddin eða breinið var ekki það besta sem guð gaf Ruslönu heldur líkaminn og það vissi Ruslana og þessvegna brúkaði hún hann að sjálfsögðu til hins ítrasta og fólkið keypti það sem hún hafði uppá að bjóða. Líkamann. Það er til lítils fyrir konur að vera gefinn flottur líkami ef þær vilja ekki eða kunna ekki að selja hann.
Klámmyndakroppur einsog Jóhanna á að sjálfsögðu að vera í blautbol og engu öðru. Jú og kannski nærbuxum. G-streng. Hún á að tæta af sér þessa viðurstyggilegu helbláu blúndugardínuafganga sem einhver afdankaður tískuplebbi hefur fundið í leikmunadeildinni í Valhöll, og skvera sér í blautbolinn og sýna hvað í henni býr, eða hvað á henni býr öllu heldur. Ef hún gerir það þá erum við í góðum málum og náum sextánda sætinu með stæl. Ef hún gerir það hinsvegar ekki þá erum við í tómu tjóni og höfnum í helvíti einsog landið sjálft. Og það þýðir mánaðar þjóðarfyllerí. Þá er of seint fyrir Jóhönnu að verða blaut.
Lokaæfing fyrir undanúrslitin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (82)
5.5.2009 | 13:13
Skítugustu og leiðinlegustu borgir heimsins
Hef aldrei orðið var við þennan gasalega óþrifnað sem á að vera í London nema hvað varðar tannhirðu Breta. Klósettið hjá mér er líklegast hreinna en skolturinn á hinni dæmigerðu bresku herfu. Kannski að þessi könnun hafi eingöngu náð til homma og þeir sjá náttúrulega skít í hverju horni og hverju gati. Veit það ekki. Þeir vilja náttúrulega vera í djúpum skít. Draumadjobbið.
Fjölmargar heimsborgir eru nú mun ógeðslegri en London og má þar nefna Aþenu, Reykjavík, Calcutta, Eskifjörð og Kulusuk, svo dæmi séu tekin.
Þeir sem telja að næturlífið í London sé það besta og skemmtilegasta í heimi hafa greinilega bara komið til London. Ef menn flokka það sem skemmtun að fara á næturklúbba og horfa á rappandi kafarabúninga með derhúfur og pulsuvarir þá er náttúrulega mjög lítil hætta á að þeir fái lekanda en "skemmtunin" er svona álíka mikil og að horfa á málningu þorna.
Og þeir sem halda að Brussel sé leiðinlegasta borg heimsins hafa augljóslega hvorki komið til Stokkhólms né Reykjavíkur. Hvað þá Osló. Það verða að teljast þrjár siðprúðustu, geldustu og alleiðinlegustu borgir alheimsins með fullri virðingu fyrir Frankfurt og Borðeyri við Hrútafjörð.
Skítugasta borgin en besta næturlífið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
4.5.2009 | 14:00
Þjóðlegur heiðarleiki Vinstri grænna
Steinríkur J. Sigfússon hefur margsagt að hann myndi frekar troða sér ofan í trjátætara en að samþykkja aðildarumsókn í ESB. Klippingin sem hann er með á hausnum virkar einsog hann hafi reynt það einhverntíma, þannig að ég trúi honum fullkomlega.
Enginn stjórnmálamaður hefur talað meira um heiðarleika undanfarna áratugi en Steinríkur, nema ef vera skyldi kollegi hans, Stalin. Ef hann samþykkir draum Jóhönnu um aðildarumsókn í ESB í skiptum fyrir ráðherrastóla þá er hann einfaldlega að svíkja kjósendur sína. Það er ekki flóknara en það. En auðvitað gerir Steinríkur það ekki. Hann er heiðarlegur stjórnmálamaður. Á íslenska vísu. Að vísu.
Draumur Steinríks er og hefur alltaf verið að einangra landið gjörsamlega fyrir umheiminum. Helst með gaddavír, hringinn í kringum landið. Við megum nefnilega ekki glata þjóðlegum einkennum okkar frekar en górilluaparnir í Amazon-frumskóginum. Við eigum að ríghalda í okkar þjóðlegu krónu og séríslenska hagkerfi og flytja aldrei inn í landið svo mikið sem eina erlenda radísu án þess að ofurtolla hana uppí hæstu hæðir, til að vernda alíslenska þjóðlega framleiðslu. Erlend samkeppni er frá djöflinum komin einsog allt sem viðkemur frelsi.
Allt sem gæti skapað atvinnu er stórhættulegt þjóðarhag. Það á allsekki að finna olíu og hvað þá að vinna hana. Kvótakerfið ber að styðja vegna þessa að auðlindir hafsins eiga að vera í sterkum séríslenskum sægreifakrumlum. Einstaklingsfrelsi er hreinn og tær viðbjóður sem ber að hefta eins mikið og kostur er.
Kjósendur hafa getað gengið að þessari draumsýn Steinríks vísri og þessvegna kusu þeir hann og VG.
Kvöldið fyrir kosningar talaði hann um heiðarleika sinn ca 10 sinnum og þá fór ég að skilja afhverju hann neitar að skila 15 millunum sem hann fékk útúr eftirlaunafrumvarpinu sem hann samþykkti skælbrosandi, og sýna þannig gott fordæmi. Það er jú vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá fór ég líka að skilja afhverju hann styður kvótakerfið og hið vel heppnaða sjávarauðlindarán. Það er vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá áttaði ég mig líka á afhverju hann dældi út bændastyrkjum í þau kjördæmi sem flokkur hans var valtur í, korteri fyrir kosningar. Það er jú vegna þess hvað hann er stálheiðarlegur. Þá rann líka upp fyrir mér afhverju hann lagði ekki öll spilin á borðið varðandi Evrópusambandið FYRIR kosningar og gerði kjósendum sínum það kristalskýrt að hann myndi aldrei svíkja stefnuskrá flokks síns og kjósendur sína með því að kvitta undir draum Jóhönnu og ekki kvika svo mikið sem hænufet frá einangrunarstefnu sinni. Það er náttúrulega vegna þess hvað hann er alveg hreint makalaust heiðarlegur alíslenskur þjóðlegur stjórnmálamaður.
Maður á alltaf að treysta fólki sem klifar á því hvað það sé heiðarlegt. Þessvegna eru bílasalar, lögfræðingar og stjórnmálamenn fólkið sem maður á að treysta fullkomlega. Helst í blindni. Þegar ég heyri einhvern segja: "Ég er heiðarlegri en Lalli Johns og Stalin, báðir til samans," þá kikna ég alltaf í hnjáliðunum og beygi mig í duftið og kýs manninn samstundis til forseta eða á þing eða til hvers sem vera skal.
Ísland mun aldrei svo mikið sem blikka ESB meðan Steinríkur situr á ráðherrastóli og hvað þá á þremur ráðherrastólum samtímis. Ef einhver maður svíkur ekki kjósendur sína þá er það Steinríkur því hann er maðurinn sem talar mest um séríslenskan þjóðlegan heiðarleika sinn, og við vitum jú öll hvernig íslenskur heiðarleiki er?
Ný ríkisstjórn um næstu helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.5.2009 kl. 02:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)