Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.7.2008 | 08:07
Séríslensk galin verðlagning
Áður en þungaskattur var afnuminn á klakanum þá var dísilolían helmingi ódýrari en bensín. Núna er lítrinn af henni um 20 krónum dýrari þrátt fyrir að vera mun umhverfisvænna eldsneyti og margfalt ódýrara víðasthvar annarsstaðar í heiminum. Hvernig skyldi nú standa á þessum séríslenska verðmun? Jú dísilbílar eru nefnilega neyslugrennri og það er hægt að komast lengra á lítra af dísil en bensíni. Það skal sko enginn fá að græða á því að vera á dieselbíl jafnvel þótt hann mengi mun minna. Nei, ekki hér. Á sama tíma tala hugsuðirnir á Alþingi um að það beri að minnka loftmengun. Einmitt.
Sama víðáttuvitlausa séríslenska verðlagningin er viðhöfð í Á.T.V.R. Þar eru vínin ekki verðlögð eftir gæðum heldur fyrst og fremst eftir alkóhólsmagni. Þannig getur t.d. handónýtt vín sem kostar 300 kall í siðmenntuðum löndum kostað hér á Íslandi 2000 kall. Víða erlendis getur gott rauðvín verið dýrara en rótsterkt vín, en hér er eingöngu rýnt í prósentustigið. Svona brennivínslegin alkóhólistahugsun" í verðlagningu vína þekkist hvergi í veröldinni nema ef vera skyldi í Noregi og Svíþjóð, tveimur af þremur leiðinlegustu löndum heimsins.
Grænmeti er hér dýrast í heimi en ætti sem hollustufæði að vera hræódýrt. Með svona galinni verðlagningu og öfugsnúinni neyslustýringu á öllum sviðum er verið að framleiða vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.
(Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum 26. júlí).
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu Fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en Guðni Ágústsson sprelligosi og fyrrverandi lambbúnaðarráðherra. Við munum fara vítt og breitt yfir sviðið sviðið og líklegast mun hann taka sér stöðu fyrir aftan eldavélina og herma eftir Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.7.2008 | 07:43
Frelsi til að gagnrýna "frjálshyggjuna"
Pólitíkin hér á Los Klakos er persónuleg og sveitó. Fólk límir sig á ákveðið lið og reynir síðan að aðlaga sannleikann að flokksskoðuninni í stað þess að aðlaga skoðanir sínar að sannleikanum.
Þegar ég segist t.d. líta á gjafakvótakerfið sem óréttlátt nonsens, landbúnaðarhaftakerfið sem peningaklósett og Íraksstríðið sem óráðsrugl þá halda sumir að maður hljóti að hafa eitthvað persónulega á móti Davíð Oddssyni.
Sumum ósjálfstæðum Sjálfstæðismönnum finnst að ég sem hægrisinni eigi helst að tapa allri sjálfstæðri hugsun um leið og Sjálfstæðisflokkurinn opnar munninn. Bush-syndromið: Þeir sem ekki eru með mér í einu og öllu eru á móti mér." Styðja frjálshyggjumenn ekki frelsi til að gagnrýna frjálshyggjuna?" Er hér kommúnísk "frjálshyggja?"
Stjórnmálakerfi umbreytast oft í trúarbrögð, hvort heldur spámaðurinn heitir Marx eða Friedman. Þeir sem halda að allur sannleikur heimsins rúmist í einni kenningu eru trúmenn, líkt og stalínistinn Þórbergur. Menn verða að halda gagnrýninni hugsun ef þeir vilja halda trúverðugleika því annars þurfa þeir að halda kjafti fyrir kosningar.
Hverskonar frjálshyggja er það sem tekur því sem árásum á Foringjann ef maður leyfir sér á stundum að vera á öðru máli en hann og Flokkurinn? Máski stendur hin séríslenska frjálshyggja" of nálægt kommúnismanum um margt, sérstaklega hvað varðar útþenslu ríkisbáknsins og bælda skoðanatjáningu.
Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum, 28. júní.
Minni vitaskuld á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni er glaumgosinn og reiðhrókurinn Fjölnir Þorgeirsson. Honum hefur einstaka sinnum brugðið fyrir í Séð og Heyrt og í nýjasta heftinu segist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kellingum og öllu sem þeim tengist. Þetta alvarlega mál þarf að spyrja hann aðeins nánar út í. Ætlar hann alfarið að snúa sér að hryssunum og dýrunum í sveitinni eða ætlar hann bara að toga í rörið á sér það sem eftir er? Hver djöfullinn er eiginlega að gerast með þennan mann?! Ætlar hann að bregðast sínum skyldum einsog ríkisstjórnin?!!!
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
16.7.2008 | 06:13
Skriffinnska ofar mannúð
Á meðan Ingibjörg Sólbrún er uppfyrir haus að sinna mannúðarmálum í Öfganistan þá eru mannréttindi fótumtroðin heimafyrir. Gjafakvótakerfið gott dæmi. Ramses hefur greinilega átt fárra kosta völ úr því hann ákvað að koma hingað á kaldan klakann; kaldasta og hjartakaldasta blýantanaggrísabæli á heimi. Hefði hann verið austur evrópskur sakavottorðslaus kaldrifjaður glæpon þá væri hann hér kominn með fasta búsetu og líklega orðinn ráðherra í ríkisstjórninni. Stjórnvöld eiga bara að ímynda sér að þau séu Davíð Oddsson og að Ramses sé Fisher og málið dautt.
Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 12. júlí
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag klukkan 16:00 verður gestur minn hin skelegga athafnakona Jónína Benediktsdóttir sem hefur lítið álit á Útvarpi Sögu og hefur munninn fyrir neðan nefið og hökuna fyrir neðan munninn og hálsinn fyrir neðan hökuna og svo mætti áfram telja þangað til maður væri orðinn dónalegur. Hún mun vafalaust tjá sig um Baugsmálið, stólpípur og margt annað þarft og þrifalegt. Þátturinn verður endurfluttur á laugardaginn klukkan 16:00 - 18:00. Þennan þátt sem og fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net á mánudaginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2008 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.6.2008 | 07:14
Reykingar og hávaðamengun
Við sátum um kvöld á rómó veitingastað hér í borg, ég og vinkona mín. Kertaljós, notaleg tónlist í bakgrunni, góður matur - og kelling með organdi smákrakka á næsta borði. Hún hefði allt eins getað mætt með loftbor. Ég spurði þjóninn hvort ég mætti kveikja mér í vindli, það væri örugglega minni mengun af honum en öskurapanum. Nei, ég mátti það ekki, ég yrði að sýna tillitssemi. Ég spurði þá hvort hann væri til í að sýna þá tillitssemi að biðja mömmuna við hliðina að sýna gestum þá tillitssemi að borða heima hjá sér með loftbornum sínum. Nei, það vildi hann ekki. Ég spurði: Eru reykingar bannaðar en hávaðamengun leyfð á veitingastöðum þar sem fólk vill njóta næðis? Hann heyrði ekki hvað ég sagði fyrir öskrum og gekk í burtu. Stemman var í molum og við hröðuðum okkur út með hlustaverk.
Daginn eftir skruppum við til útlanda. Flugvélin var þéttsetin. Langt flug fyrir höndum. Fyrir framan okkur sat kelling með hágrenjandi smákrakka í fanginu. Einmitt það sem vantaði. Farþegarnir hrylltu sig og fóru að raða í sig svefntöflum og róandi, allir nema litli loftborinn sem var í gangi á öskrandi ferð alla leiðina. Engum kom dúr á auga. Ein lítil róandi barnatafla í réttan munn og öll vélin hefði steinsofnað. Kannski vantar sérbása fyrir ómálga flugdólga? Ég ætlaði að fara að kveikja mér í vindli en mundi að ég varð að sýna tillitssemi.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum 14. júní)
Í þætti mínum "Miðjunni" í dag klukkan 16:00 á Útvarpi Sögu fm 99.4 verður gestur minn Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaskáld. Hann var í spjalli hjá mér fyrir fáeinum vikum og þar sem hann er mikill sagnabrunnur þá er ekki annað hægt en að rekja aðeins fleiri garnir úr honum, - allavega eina ósmurða görn.
Síðustu 4 þættir verða komnir inn á síðu mína www.stormsker.net fyrir helgi. Njótið vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
14.5.2008 | 07:56
Bárujárnsbyltingin ríður húsum
Skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari kom hingað til lands bandarískur byggingaspesíalisti í skemmtiferð. Ekki veit ég hvernig honum datt það í hug, en hann fékk sér víst göngutúr um borgina og skoðaði húsagerðarlistina. Eftir upplifunina sagði hann við íslenskan blaðamann: Djöfull hafiði farið illa út úr stríðinu maður! Hann gapti af undrun þegar honum var tjáð að það hefði engin sprengja fallið á borgina önnur en sú sem býr í íslensku smekkleysi.
(Íslensk húsagerðarlist)
Nú er búið að ákveða að eyða milljarði í kaup og samantjöslun á tveimur þeim aumustu og stagbættustu óþverravinnuskúrum sem sést hafa á byggðu bóli, að skaðbrenndum indíánatjöldum meðtöldum. Í kjölfarið á svo að friða allt annað aldargamalt fúaspýtnarusl og bárujárnsdrasl sem finnst við Laugaveg og nágrenni, fyrir ófáa milljarða.
Sögufrægt ofvitahús Þórbergs Þórðarsonar að Skólavörðustíg 10 er hinsvegar að sjálfsögðu búið að flytja uppí Árbæ eða sprengja í loft upp. Allt samkvæmt alíslenskri smekkvísi og snilld.
Á sama tíma og húsafriðunaræði ríður húsum þá er verið að buffa og brytja fólk í smátt í miðbænum og þar með talið á eftirlitsmyndavélalausum Laugaveginum því það eru ekki til peningar í almennilega löggæslu, nema þegar kemur að því að hakka niður vörubílstjóra og þeirra stuðningsmenn sem neita að borga hæsta elsdneytisverð í heimi.
Taðreyktir hippar væla um að það beri að friða einhverja rottuholu sem kallast Sirkus og fatta ekki að borgin er einn allsherjar Sirkus. Væri nokkuð galið að byrja á því að friða fólkið í bænum áður en við förum að friða hjallana í bænum? Við eigum ekki að friða kofana fyrr en við höfum efni á að friða fólkið því kofarnir eru til fyrir fólkið en ekki öfugt.
(Þetta fallega hús mætti nú gera
upp fyrir lítinn pening, svosem 1 milljarð)
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum 8. febrúar síðastliðinn)
Minni vitaskuld á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna," sem er í dag, miðvikudaginn 14. maí, á Útvarpi Sögu 99.4 milli 16:00 og 18:00. Gestur að þessu sinni er Helgi Hóseason, fyrsti og þrautseigasti mannréttindabaráttumaður Íslands.
Fyrri þætti má heyra á www.stormsker.net
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.5.2008 | 08:28
Sofandi sauðir (Silence of the lambs)
Einhverjar hörðustu lögrugluaðgerðir Íslandssögunnar fóru fram fyrir 10 dögum. Og gegn hverjum beindust þær? Eiturlyfjabarónum? Glæpaklíkum? Fjöldamorðingjum? Nei, vörubílstjórum að sjálfsögðu. Hættulegustu djöflum landsins. Þessi fól vilja geta lifað af kaupinu sínu og neita að borga hæsta eldsneytisverð í heimi og hafa reynt að ná eyrum ráðamanna í aðeins þrjú ár. Svona öpum á sko ekki að sýna neina linkind. Þeir gætu skapað vont fordæmi og allt gæti hér farið úr böndunum.
Íslendingum er afar illa við ókurteisleg mótmæli og vilja helst bara mótmæla klámráðstefnum og nektarstöðum og það á penan hátt einsog teprulegum blævængjafrúm sæmir. Hafa þeir mótmælt kröftuglega stærsta ráni Íslandssögunnar, gjafakvótakerfinu? Nei, bara maldað í móinn. Hafa þeir mótmælt landbúnaðarkerfinu? Verndartollum? Innflutningshöftum? Nei, þeir elska heimspeki Bjarts í Sumarhúsum og dýrka allt sem íslenskt er og hafa illan bifur á öllu útlensku sem gæti bætt afkomu þeirra. Eru núna fyrst að fatta að krónan er jafn reikul og veik og þeir sjálfir.
Hafa þeir mótmælt spillingarútsölu eignanna á varnarsvæðinu á Vellinum? Nei. Hafa þeir mótmælt hæsta matvöruverði í heimi? Hæstu bankavöxtum í heimi? Hæstu tryggingaiðgjöldum í heimi? Nei, bara dæst og unnið meira að hætti þrælslundaðra bláeygðra hlandaula. Kjörorð okkar Íslendinga er: Don´t Wake Me Up! Kannski að vörubílstjórar séu að skapa gott fordæmi og nái að flauta svo hátt að við vöknum.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 3. maí)
Það væri eitthvað mikið að ef ég myndi ekki minna á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna" á Útvarpi Sögu sem er í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur að þessu sinni er rithöfundurinn eldklári, Þórarinn Eldjárn.
Hægt er að hlusta á eldri þætti á www.stormsker.net
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.5.2008 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
22.2.2008 | 07:44
Afmælisbarnið Davíð Oddsson
Þegar Davíð Oddsson varð fimmtugur 1998 gaf ég honum málverk eftir mig sem ég hafði verið með á málverkasýningu sem ég hélt á Gallerí Borg 1993. Þetta snotra raunsæismálverk er af krullum og aftur krullum og engu nema krullum og ég skírði verkið Loftmynd af Davíð Oddssyni. Með myndinni lét ég fylgja frumsamda huggulega vísu sem var svona:
Honum Dabba er margt og mikið gefið
og margt hann gefur fólki á þessum stað.
Hann hefur munninn fyrir neðan nefið
og nóg af gáfum fyrir aftan það.
Hann hlær að aumum andstæðingaklækjum
og leggur pent á leiði þeirra krans.
Davíð getur greitt úr öllum flækjum
nema þeim sem eru á höfði hans.
Kallinn var svo ánægður með þessa gjöf að hann tókst á loft og ég hélt að hann ætlaði að snappa og fara að gera mig að menntamálaráðherra eða forseta hæstaréttar eða eitthvað svoleiðis. Hef ekki séð hann svona sælan á svip síðan hann missti 5 aukakíló þegar hann fór í klippingu fyrir 30 árum. (Sjá mynd hér að neðan úr Séð og Heyrt)
10 árum eftir að Dabbi varð fimmtugur þá varð hann sextugur og sá atburður gerðist þann 17. janúar síðastliðinn. Hann hélt uppá afmælið sitt í Ráðhúsinu í tjörninni og þar hafði hann myndina góðu uppá vegg til sýnis fyrir veislugesti og talaði fallega um hana í frábærri afmælisræðu sinni. Myndin er svo nákvæm og svo sláandi lík honum að hún er einsog ljósmynd og það kæmi mér ekki á óvart að hann hafi látið smækka hana og notað í ökuskírteinið sitt. Þegar Dabbi var utanríkisráðherra og mikið í útlandinu þá hefur Ástríður kona hans örugglega haft mynd af málverkinu í veskinu sínu til að muna hvernig hann liti út.
Í byrjun þessa árs talaði Dabbi um það í viðtölum að það væri búið að taka úr honum ógrynnin öll af líffærum og það væri ekki mikið eftir nema einhverjar lappir og krullur. Jú og blá hönd. Í fyrstu hélt ég að Atkins kúrinn væri ekki að virka og að þetta væri hans eina raunhæfa leið til að grenna sig en svo áttaði ég mig á að hann hafi verið fárveikur og að þetta hefðu verið svona frekar bráðnauðsynlegar skurðaðgerðir.
Þar sem ég kann ekki við að gera grín að veikindum fólks, því allir geta jú veikst nema Ólafur F. Magnússon, þá ákvað ég að gefa Dabba líffæragjafakort í sextugsafmælisgjöf. Hann ljómaði í framan einsog tungl í fyllingu, líkt og hann hefði verið að hækka stýrivexti. Hann hefði ekki getað orðið hamingjusamari jafnvel þótt Ólafur Ragnar hefði orðið fyrir eldingu.
Hann horfði á líffæragjafakortið og hugsaði líklega með sér: Mikið er þetta hugulsamt af honum Sverri. Hann gefur mér líffæragjafakort þar sem hann býðst til að selja mér líffæri. Hjartnæmt. Það vantar eitthvað mikið í mig, en nú hefur Sverrir reddað því.
Svona var kortið, innrammað og glæsilegt:
Líffæragjafakort til handa Davíð Oddssyni sextugum
Gegn framvísun þessa korts á hvaða spítala sem er getur þú farið fram á að eftirfarandi líffæri verði tekin úr Sverri Stormsker og grædd í þig eða á, gegn vægri þóknun:
Nýra (347.990 kr. með virðisauka)
Lifur, án teljandi skorpu (532.999 kr)
Hrogn (verið að kanna málið)
Heilafrumur (799 kr stykkið meðan byrðir endast)
Hjarta (verið að kanna hvort það sé til staðar)
Tóneyra (439.990 kr stykkið)
Getnaðarlimur (276.990 kr metrinn)
Hönd, helblá og nett (258.990 kr. stykkið. Aðeins tvær eftir)
Heili (39 kr, enda svo gott sem á síðasta snúningi)
Með vinsemd og virðingu,
Sverrir Stormsker
(Segið svo að maður sé ekki góður við vini sína. Fæ kallinn vonandi í viðtal fyrr en seinna í þáttinn okkar Halldórs E á Útvarpi Sögu sem kallast Miðjan. Þar sem ég hef verið spurður soldið mikið um þessa þætti þá má geta þess að gestir fyrri þátta hafa verið Hallgrímur Helgason, Geiri á Goldfinger, Árni Johnsen, Jón Baldinn Hannibalsson og Brunddís Schram og þeir sem hafa misst af þessum þáttum geta nálgast þá á www.stormsker.net).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.2.2008 kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
22.11.2007 | 10:54
RÁÐHERFA
Ég sting hér með uppá orðinu ráðherfa fyrir öfgafemínur sem geta ekki með nokkru móti sætt sig við starfsheitið ráðherra.
Fyrir nokkrum árum gaf ég út frumsamda nýyrðabók þarsem ég lék mér að því að gefa þekktum orðum nýja merkingu jafnframt því að smíða ný. Minnir að ég hafi t.d. notað orðið senditík yfir sendiherra og orðið flygill yfir flugmenn og orðið bíldælingur yfir afgreiðslumann á bensínstöð og orðið andlitsdráttur yfir munnmök og orðið VitGrannir þýddi Vinstri Grænir. Þetta var náttúrulega allt hugsað sem djók, ekki "uppnefni," - vildi teygja aðeins á tungunni, fara í sleik við íslenska tungu, taka orðin á orðinu. Fjölmörg nýyrðanna náðu að festast í málinu og er það vel. Man ekki hvað ég kallaði ráðherra eða alþingismenn. Get birt úrdrátt úr þessari bók við tækifæri ef ég nenni því. Allavega gerði ég 1 stykki málshátt um yfirvaldið sem birtist í málsháttabók sem ég gerði og hann var svona: Betra er að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn. Dettur þessi málsháttur oft í hug þegar ég hlusta á þá.
Þegar Steinunn Valdís var borgarstjóri þá talaði hún aldrei um sig sem borgarstýru af einhverjum ástæðum, líklegast þótti henni það ekki nógu virðulegt, en núna vill hún að tekið verði upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geti borið. Kannski er við hæfi að þessi tillaga hennar komi upp núna því það eru ekki margir klukkutímar síðan ný femínísk biblíuþýðing leit ljós dagsins þar sem alfaðirinn almóðirin var leiðrétt og systrum troðið við hliðina á bræðrum og karlkyni breytt í hvorugkyn þar sem því var viðkomið til að bókin yrði á máli beggja kynja og til að guð myndi ekki móðga femínur.
Karlar hafa hingaðtil ekki viljað láta kalla sig frúr, meyjur, freyjur, konur og mæður o.s.fr. og hafa verið snöggir að breyta starfsheitum sem bera slíkar endingar þegar þeir hafa farið í kvennadjobb án þess að hafa farið fram á hina femínísku geldingu tungumálsins að Bæði kynin verði að geta borið starfsheitin einsog Steinunn fer fram á. Þeir kallast t.d. ekki flugfreyjur heldur flugþjónar og flugþjóar, ekki skúringakellingar heldur ræstitæknar eða tuskubellir, ekki vændiskonur heldur gígalóar (gígalókar) o.s.fr. Enginn karl myndi segja aðspurður um starfsheiti: Ég er súludansmey heldur myndi hann segja stoltur: Ég? Ég er strippari, nú eða: Ég er tippari, nú eða: Ég er punglingur.
Ég get þessvegna vel skilið að konur vilji ekki láta kalla sig herra, jafnvel þó þær hafi gert allt til að líkjast þeim; farið að ganga í buxum, ganga í jakkafötum, klippt hár sitt stutt og eiginlega gert allt nema að láta sér vaxa tippi. Það vantaði bara að þær vildu láta kalla sig herra, þannig að ég er í bland svolítið hissa á þessu.
Ef konum finnst svona niðurlægjandi að vera titlaðar ráðherrar og vilja kalla sig eitthvað annað, einsog t.d. ráðfreyjur, ráðstýrur, ráðynjur, ráðfrúr, ráðskonur, óráðskonur nú eða ráðherfur, þá bara gera þær það. Það er enginn sem bannar þeim það, ekki frekar en nokkur bannaði þeim að kalla sig þingkonur. Nú ef að breytingar þeirra ná fótfestu í tungumálinu þá er það gott og blessað. Tíminn er besti dómarinn. Þær þurfa ekki að hlaupa upp til handa og fóta og setja allt á annan endann með stjórnarskrárbreytingum og lagabreytingum og ráða og nefndaskipunum og einhverju svakalegu ekkisens pípi, og þær þurfa allsekki að reyna að þvinga karla til að breyta sínu starfsheiti sem er einfaldlega ráðherra. Varla vilja femínur ráða starfsheitum karla líka? Jú greinilega. Ætti að vinnast þeim létt úr því þær náðu að gelda "orð guðs" (gauðs).
Tungumálið á að fá að þróast áreynslulaust án þvinganna, reglugerða, valdboða, femínisma og fasisma. Einfalt mál.
Margrét Pála skólastjóri Braggabarna, eða hvað hann heitir nú þessi kynskipti leikskóli hennar, vildi allsekki bera karlkyns starfsheitið skólastjóri og tók upp á því að kalla sig skólastýru, sem er bara hið besta mál. Það þurfti ekkert húllumhæ í kringum það - það þurfti ekkert að kveikja á kertum eða slátra geit eða að breyta stjórnarskránni eða lögum eða einu eða neinu, - bara starfsheitinu. Og núna líður henni miklu betur og kemst í mun nánari snertingu við konuna í sér og lifir mun betra Móðurlífi og allir eru gasalega happy. Þetta eiga náttúrulega konur að gera sem fíla Kurt Russel afturábak.
Enginn hefði bannað Steinunni að kalla sig borgarstýru á sínum tíma ef hún hefði kært sig um. Ef kvenkyns leigubílstjóra hryllir við því að kallast leigubílstjóri og vill fyrir alla muni kalla sig leigubílstýru þá bara gerir hún það. Hún þarf ekkert að kalla til einhverja töframenn og sverðgleypa. Ef einhver karlkyns ljósmóðir er með niðurgang af áhyggjum yfir starfsheiti sínu þá þarf hann ekki annað en að kalla sig ljósfaðir eða ljósálf eða whatever og málið er dautt. Ef einhver kvenkyns asni vill ekki fyrir nokkurn mun láta titla sig asna í símaskránni heldur ösnu þá er það ekki vandamálið. No problem.
En hversvegna nær þessi tillaga Steinunnar aðeins yfir æðstu stöður, yfirstéttarstöður, tignarstöður svosem ráðherra og sendiherra en ekki venjuleg valdalaus almúgastörf svo sem strætóbílstjóra og skipamellur? Eru tengslin alltaf að minnka og minnka við raunveruleikann og við það fólk sem hún starfar í umboði fyrir? Varla þyrfti að eyða tíma þingsins og breyta stjórnarskránni og lögum ef kvenkyns strætóbílstjórar vildu kalla sig strætóbílstýrur.
Tungumálið finnur sér farveg án valdboðs. Alltaf best að leyfa vatninu að renna niður í móti.
Þessi þingsályktunartillaga Steinunnar og félaga kemur auðvitað nokkrum áratugum of seint einsog við var að búast, því starfsheitið ráðherra er nefnilega orðið gjörsamlega rótgróið í málinu sem kynlaust orð í hugum þokkalega heilbrigðs fólks sem hugsar ekki alla skapaða og óskapaða hluti útfrá femínískum kynjaþrætubókarfræðum, enda hefur engum kvenkyns ráðherra dottið í hug að amast yfir þessu heldur lagt því meiri áherslu á að sinna starfi sínu einsog maður kona.
Vigdís Finnbogadóttir fór t.d. ekki á taugum yfir því að vera titluð forseti en ekki forseta. Hún var reyndar stundum ávörpuð frú forseti sem var svolítið einkennilegt en hún fór ekki fram á að vera ávörpuð frú forseta, líklegast vegna þess að það hefur minnt of mikið á orðið klósettseta.
(Annars er orðið for-seti náskylt orðinu klósettseti í grunninn að því leiti að þar gæti verið um einhvern að ræða sem situr í for, - semsé í djúpum skít).
Ingibjörg Sólrún hefur heldur ekki kvartað mikið yfir því að kallast forMaður Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís og aðrar öfgafemínur vilja líklegast kalla hana forynju Samfylkingarinnar og þá bara gera þær það. Ekki málið.
Steinunn Valdís er svolítið seinheppin í þessu vafstri sínu vegna þess að hún misskilur orðið ráðherra nánast fullkomlega. Ef við gefum okkur að konur (að femínistum undanskyldum) séu samþykkar því að þær tilheyri ekki bara kvenkyninu heldur mannkyninu og þoli jafnvel að láta kalla sig menn, þá er það nú svo að orðið ráðherra merkir ekki karl heldur einfaldlega yfirmaður / yfirkona, yfirvald, boss, þ.e.a.s. manneskja sem fer með vald ráðuneytis. Ekki mjög flókið. Því væri auðveldlega hægt að segja ef Steinunn væri yfirvald: "Hún Steinunn er minn herra," þ.e.a.s. hún fer með húsbóndavaldið. (Ekki húsbóndakonuvaldið). Ég trúi ekki að það þurfi einhvern Einstein til að skilja þetta.
Þegar talað er um herraþjóð þá er ekki átt við þjóð sem karlar einir tilheyra, heldur valdaþjóð, drottnandi, leiðandi yfirvaldsþjóð, aðal mambóið.
Svo má nefna að Herranótt (leikhátíð M.R) er ekki eingöngu ætluð körlum heldur báðum kynjum, semsé mönnum. (Skrítið að femínur skulu ekki vera búnar að breyta þessu í Frúanótt).
Ef að orðið herra þýddi eingöngu karl þá væri ekkert til sem héti herramaður. Eða hefur einhver heyrt orðið frúkona? Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu að nota orðið herrakona í merkingunni valdakona þó það kunni að virðast skrítið við fyrstu sýn.
Steinunn getur því alveg sofið rótt og sleppt því að sólunda peningum skattborgara og mikilvægum tíma í að skipa nefndir og ráð og óráð til að finna nýtt gasalega fínt virðulegt starfsheiti ráðherra sem bæði kyn geti borið. Þetta orð er nefnilega til nú þegar og það er orðið: Ráðherra.
Ég segi einsog Pétur Jóhann Sigfússon í Næturvaktinni: Þarf að ræða þetta eitthvað frekar...?
Já, það virðist vera. Þetta virðist vera eitthvað svakalega flókið.
Þar sem ég veit að femínur neita að skilja þetta og munu halda áfram að berja hnetunni við steininn þá sting ég semsé hér með uppá orðinu ráðherfa. Miðað við allt dellumeikið í VitGrönnum og öðrum harðlínufemínum þá kæmi mér ekki á óvart að þetta orð verði framvegis notað yfir kvenráðherra: Ráðherfa.
Sem er eiginlega synd því að orðið ráðherra er alveg fyrirtaks starfsheiti sem bæði kynin ættu að geta borið með reisn, ef hún væri til staðar.
Virðum MÓÐURmálið.
Herramaðurinn kveður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2007 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (129)
21.11.2007 | 10:34
Homo Aliens
um lítið veit hann mest.
Blóðugur upp að öxlum
um allar jarðir hann berst
og friði - einsog sést.
Verður fráleitt fullnægt
fyrren veröldin ferst.
Að fjölyrð´um frelsarans boðskap
fer´onum allra verst.
Hnefi er merki mannsins,
merkið sem þekkir hann gerst.
Framtíðin felst í dauða,
sú fjárfesting þykir best.
minniháttar pest.
Þá-fyrst reynir á þroskann
þegar í odda skerst.
Bróðurþelið þrýtur
þegar á reynir mest.
lítinn gálgafrest.
Börnin fæðast blóðug
og blóðug deyja þau flest.
(Úr ljóðabók minni Með ósk um bjarta framtíð, 1997)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.11.2007 | 11:28
"Við búum í hræðilegri drengjaveröld!"
Las frekar kátbroslegt viðtal í DV í gær við Guðnýju Halldórsdóttur fórnarlambafemínista. Má til með að benda á þetta þar sem svo margir eru hættir að lesa þetta ágæta blað. Fyrirsögnin var feitletruð og hjartastöðvandi: BÚUM Í HRÆÐILEGRI DRENGJAVERÖLD. Ég missti úr nokkur slög því þarna var greinilega einhver glænýr hrottalegur sannleikur á ferðinni, einhver skelfileg nýuppgötvuð martröð. Ég þræddi mig í gegnum viðtalið og þar sagði hin þrautpínda og kúgaða kvikmyndagerðarkona orðrétt í tilefni þess að hún fékk "Íslensku bjartsýnisverðlaunin," en þau verðlaun eru veitt framúrskarandi jákvæðu fólki:
Við BÚUM Í HRÆÐILEGRI DRENGJAVERÖLD, það sá ég best um daginn þegar ég var að tala við kvikmyndanemendur í Menntaskólanum í Reykjavík, það var 31 drengur í valfagi í kvikmyndum og ekki ein einasta stúlka.
Einmitt. Æjæ. Helvítis karlaveldið alltaf með yfirgang og andlegt ofbeldi. Drengir eru nú ljótu djöfulsins óþverrarnir. Þeir eru svo mikil ómenni að það er engu lagi líkt, traðka yfir allt og alla og það sem verra er: þeir hafa af einhverjum ástæðum meiri áhuga á listsköpun en dömur. Hryllingur að heyra. Er ekki hægt að gera eitthvað femínískt og gáfulegt í þessu? Er ekki hægt að setja hinn greindarlega kynjakvóta á þetta hörmulega VALfag, kvikmyndagerðina? Fara fram á að stelpur séu lágmark 50% í þessu fagi?
Ef okkar góði fórnarlambafemínisti Guðný Halldórs er að kvarta yfir áhugaleysi kvenna á þessari listgrein þá er það svolítið einsog óp útí loftið því maður þvingar ekki fram áhuga á einu eða neinu hjá einum eða neinum, hvorki hjá körlum eða konum, en ef það vill svo til að karlar, hinir hræðilegu drengir einsog hún kallar helming mannkyns, hafa áhuga á þessari grein lista, þá hlýtur það bara að vera hið besta mál. Þar sem þetta er VALfag hversvegna orðar hún þá ekki staðhæfinguna í takt við raunveruleikann, án femíniskrar rökleysu, t.d. eitthvað á þessa leið:
Við búum í hræðilegri veröld þar sem stelpur hafa engan áhuga í kvikmyndagerð.
Og ef henni finnst konur vera ragar við þetta VALfag, hversvegna sagði hún þá ekki einfaldlega:
Við búum í hræðilegri kvenaulaveröld.
Forréttindafemínistinn og fórnarlambafemínistinn, - þessi manntegund, fyrirgefið, kventegund, á það til að túlka umhverfið allt og heiminn allan sem aðsúg að sér og árásir á sig og allar sínar heilögu sjálfmiðuðu kvenlægu skoðanir.
Það er ekki drengjum að kenna að þeir skulu hafa brennandi áhuga á kvikmyndagerð og séu í afgerandi meirihluta í þessu VALfagi MR og að stelpur séu þar 0%. Það er enginn að binda stelpurnar niður og kúga þær. En það er jú vissulega drengjum og karlmönnum "að kenna" að þeir skulu hafa gert yfir 97% allra kvikmynda í heiminum frá upphafi fyrir utan náttúrulega að finna upp kvikmyndavélina sjálfa og öll þau tæki og tól viðvíkjandi kvikmyndagerð sem Guðný er að nota, þessi ágæti fórnarlambafemínisti sem lifir í hræðilegri drengjaveröld.
Hinir hræðilegu drengir eru einfaldlega svolítið frjóir sumir hverjir og uppfinningasamir og forvitnir og ofvirkir og kjarkaðir og testósteronpakkaðir og hræðilega áhugasamir um gangverk listanna og tilverunnar og þessvegna er nú mannkynið kannski ekki lengur inní hellum. Guði eða einhverjum sé lof fyrir óþæga, hræðilega drengi, einsog tilaðmynda Halldór Laxness sem átti sinn þátt í að skella okkur Íslendingum inní 20stu öldina. Mætti ég biðja um fleiri slíka óforbetranlega hræðilega drengi.
Smá útúrdúr: Fyrir 10 árum eða svo var ég svo frægur að skrifa fyrstu mótmælagreinina gegn femínisma í íslenskt blað (og líklegast þá síðustu), nánar tiltekið í DV, þar sem ég gagnrýndi forréttindafemínista fyrir að vilja hafa jafnréttið sín megin og tiltók fjölmörg dæmi máli mínu til stuðnings. Þar hæddist ég tildæmis pínulítið að konum fyrir að vilja gera svo lítið úr sjálfum sér að hafa huglægar (líkamskraftlausar) íþróttagreinar einsog t.d. skák, bridge, snooker o.fl. íþróttagreinar deildarskiptar, semsé í karla og kvennadeildir. Fannst það hlálegt og finnst það enn hlálegt fyrir kvenna hönd. Lítilsvirðandi fyrir þær sjálfar. Hélt þær vildu keppa við karla á jafnréttisgrundvelli þegar líkamskröftunum sleppti. Hversvegna berjast ekki femínistar fyrir jafnrétti á Öllum sviðum? Líka á sviðum andlegra íþrótta? Augljóst. Kemur þeim illa. Afsaka sig eflaust með því að segja að konur séu svo fáar á þessum sviðum rökhugsunar. En afhverju eru þær svona fáar á þessum sviðum? Svar: Áhuginn leiðir gáfurnar og öfugt.
Ég nefndi t.d. þarna í þessari grein minni að Polgarsystur væru einu stelpurnar á topp 100 listanum yfir bestu skákmenn heims (nálægt 40 sæti og aðrar 8 á topp 500) þrátt fyrir áratuga skákkennslu kvenna í austantjaldslöndunum og so videre. En þetta er vonandi allt að koma einsog Hallgrímur Helga myndi eflaust dæsa glottandi. Ég fékk að sjálfsögðu engin rök á móti máli mínu en því meira af svívirðingum og dylgjum og óhróðri. Ég bjóst vitaskuld við því frá okkar ágætu fraukum þar sem þær tóku þessum upplýsingum að sjálfsögðu sem persónulegum árásum, en það kom mér pínupons á óvart að ekki einn einasti karl skyldi hafa staðið upp og varið skoðanir mínar og sínar, en margir hvísluðu því að mér í samkvæmum að þeir væru mér hjartanlega sammála, en ég mætti í guðs bænum ekki láta það fara lengra. Svona voru nú íslenskir karlar blauðir og bældir og langt inn í sér í þá tíð þrátt fyrir meðfætt lúbarið testósteronið og kannski eru þeir það ennþá. Hef ekki hugmynd um það og er nokk sama.
Hefur einhver kona barist fyrir því að hlutdeild kvenna í naglhreinsun eða byggingariðnaði eða öðrum líkamskraftlausum störfum verði aukin? Nei. Þær nenna þessu ekki. Ekki nógu fínt. Of erfitt og leiðinlegt þó þetta séu í raun kvenmannsverk ekki síður en karlmannsverk. Þær vilja stjórnunarstöður, Valdastöður, hafa jafnréttið sín megin, vilja kynjakvóta, jákvæða mismunun - en samt "jafnrétti."
Mismunun getur aldrei undir nokkrum kringumstæðum verið jákvæð og jafnrétti getur aldrei náðst með mismunun. Geta, menntun og hæfileikar eiga að vera í forgrunni, ekki ætterni eða klíka og síst af öllu kyn.
Úr því harðlínufemínistar eru svona hrifnir af kynjakvóta hversvegna er þá Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar eingöngu skipuð konum - 5 konum og engum karli? Skandall. Það er vegna þess að femínistar eru ekki að berjast fyrir mannréttindum heldur kvenréttindum, forréttindum, sérréttindum. Þeir líta ekki á sig sem menn heldur fyrst og fremst konur. Þeim finnst þeir ekki tilheyra mannkyninu heldur kvenkyninu og líta á karlkynið sem óvini sína. Það eina sem femínistar eru að gera með öllum þessum óréttlætiskröfum sínum og leiðinda aðskilnaðarbrambolti er að eyðileggja fyrir kynsystrum sínum sem í miklum meirihluta eru ekki plagaðar af minnimáttarkennd, og þeir eru að láta hinn dæmigerða sanngjarna og réttlætissinnaða karlmann fá nístingskaldan hroll og eiturgrænar bólur þegar hann heyrir minnst á hið sakleysislega orð femínismi. Ég þykist vita að femínistar séu ekki í vinsældakosningum frekar en ég hef nokkurntíma verið en halda þeir virkilega að sigur réttlætis fáist með óréttlæti? Ég held ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég segi að orðið femínismi standi í dag í hugum fjöldans fyrir ranglæti, óbilgirni, dellu og forréttindi en ekki réttlæti, réttsýni og jafnrétti einsog til stóð í upphafi. Kannski hef ég rangt fyrir mér en ég efa það. (Sjá: skoðanakönnun hér til vinstri á síðunni).
Launamisrétti kynjana ber að sjálfsögðu að leiðrétta ekki seinna en Strax en það er með öllu óskiljanleg hversvegna konur vilja gera svo lítið úr sér og setja sig niður á svona lágt plan að heimta hinn tröllheimska kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja, - jákvæða mismunun. Þær segja eflaust að þetta sé EINA leiðin, en þetta er fyrst og fremst LÉTTA leiðin, og létta leiðin er án nokkurs vafa ekki RÉTTA leiðin.
Við áttum fyrsta kvenforseta heimsins, við höfum átt konur sem borgarstjóra, konu sem forseta hæstaréttar og konu sem forstjóra í einu stærsta fyrirtæki landsins og við eigum konur sem ráðherra og af tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins þá er í öðrum flokknum kona sem formaður og hinum kona sem varaformaður, þær hafa semsé öll tækifæri á við karla, sem betur fer, og hafa nýtt sér þau sem vera ber, en ennþá eru konur, árið 2007, hágrenjandi útum allan bæ yfir "karlaveldinu" og hvað karlpungarnir séu hræðilega vondir við þær og kúgi þær hrikalega. Efast um að Svandís Svavars og slíkar kraftakonur nenni að hlusta á þvílíkt píp, jafnvel verandi í Vinstri grænum.
Ekki má gleyma að stjórnmálaforingjar undanfarinna ára og talentþefarar þeirra hafa verið manna duglegastir við að ýta á bossann á konum og reynt að peppa þær upp, þó ekki væri nema til að bæta ímynd flokks síns og sýna að flokkur þeirra sé líbó og töff, en þessi góða viðleitni og áreynsla þeirra hefur verið einsog og að ýta á eftir stöðnum uxa í steypuskóm því óákveðni og ragmennska greyið kvennanna hefur oft og tíðum verið með þvílíkum ólíkindum að foringjunum hafa hreinlega fallist hendur. En nokkrar áræðnar konur hafa tekið slaginn einsog t.d. íþróttakonan og testósterontröllið Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og er það vel.
En hvernig fór ekki fyrir Kvennalistanum. Honum var 100 sinnum boðið í ríkisstjórn en var endalaust með haltumérslepptumér hringlandahátt undir yfirskyni pólitískrar ábyrgðarsemi. Þorði ekki að hreyfa sig úr stað og drapst að lokum úr kjarkleysi, sundrung og heimsku. Gamla góða testósteronið að sjálfsögðu í frostmarki einsog fyrri daginn. Eina manneskjan sem hafði manndóm kvendóm í sér til að rífa sig uppúr þessu drullusvaði kvenlegs mannlegs gauðsháttar var Ingibjörg Sólrún og var húðskömmuð af flokksystrum sínum fyrir vikið næstu árin á eftir.
Aftur að Guðnýu Halldórsdóttur. Ef það kæmi uppúr dúrnum að venjulegir "hræðilegir drengir," einsog hún segir að veröld okkar sé uppfull af, hefðu ekki áhuga á að velja sér kvikmyndagerð sem VALfag í menntaskóla, og stelpur væru þar í afgerandi meirihluta, væri þá gáfulegt af mér að segja í viðtali: "VIÐ BÚUM Í HRÆÐILEGRI KVENNAVERÖLD." Hvað myndu feministar segja við slíkum orðum á þessum pólitísku rétttrúnaðartímum? Hvað myndu þeir gera? Ég yrði brenndur á báli. En það er í lagi að Guðný segi þetta vegna þess að hún segir þetta um karlpeninginn. Og hún er jú kona. Allir eiga að vera konur í dag. Ekki ég. Sorrý. Ég ætla að halda áfram að vera "hræðilegur drengur."
(Minni á skoðanakönnunina hér til vinstri)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.11.2007 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (112)