Færsluflokkur: Lífstíll
1.10.2008 | 09:05
Vonlaus fegrunaraðgerð
Jakob Frímann miðborgarstjóri á ekki létt verk fyrir höndum. Hann á að breyta ljótustu miðborg norðan Suðurpóls í ljótustu miðborg norðan Alpafjalla.
Og hvernig á þessi lýtaaðgerð að fara fram? Með því að brenna borgina til grunna? Nei, það væri vissulega góð byrjun, en það á semsé að taka spreibrúsa af listrænum unglingum. Það á að vera fyrsta skrefið. (Væri ekki nær að taka spreibrúsana af lögreglunni?)
Svo á að setja sæta plástra á opin svöðusár sem eru út um allt í miðbænum. Alltsaman tilgangslausar bráðabirgðaaðgerðir.
Íslensk húsagerðarlist
Vandinn er ekki fólginn í spreibrúsakrökkum heldur skipulags"sérfræðingum" borgarinnar og íslenskum arkitektum og almennu séríslensku smekkleysi. Hér ægir öllu saman: Litlir ljótir Hans-og-Grétu-kofar við hliðina á ennþá smekklausari og andlausari glerbyggingum. Hverjir aðrir en Íslendingar hefðu plantað stíllausum glerklumpi á milli Apóteksins og Hótel Borgar? Eða bankaklumpi í Lækjargötu á milli Iðnó og fjörgamals krúttlegs piparkökuhúss? Eða nútíma tannlæknabyggingu við sömu götu við hliðina á gamla hornhúsinu sem brann?
Lækjargata er líklega hlæjilegasta gata í Evrópu. Þar ægir saman öllum stílum í fullkominni dellu, en þetta á víst að heita Main Street Reykjavíkur, sú gata sem hér áðurfyrr skipti borginni í vestur og austur.
Það er engin heildarmynd á neinu, bara hryggðarmynd. Borgin er rugl. Meiraðsegja sjálft Óráðhúsið er einsog blanda af stórkallalegum hermannabragga og grísku hofi og rústar alveg heildarmynd hinnar snotru Tjarnargötu. Hofbragginn sem slíkur er ókey en rímar ekki við umhverfið, í raun alveg úr tengslum við umhverfið einsog fólkið sem þar er innandyra. Perlan er með því smartara hér í borg en hún myndi varla sóma sér vel niðrí Aðalstræti frekar en gamla Mogga"höllin."
Borgir mættu gjarnan vera í uppbyggingu og stíl einsog ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Maður segir helst ekki:
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,
við erum gestir sem dá sig.
Einir koma og aðrir fara í dag
og ég er að skíta á mig.
After Before
Það verður að vera eitthvert vitrænt og listrænt samræmi í hlutunum og einhver heildar strúktúr sem gengur upp einsog krossgáta.
Þessi nýja fegrunaraðgerð miðborgarinnar er einsog að ráða mann til að ryksuga öskuhaugana. Hvað stoðar að meika herfu? Borgin er einsog greppitrýnið á Michael Jackson og við verðum bara að feisa" það. Hún er vonlaust tilfelli sem hvorki Kobbi né hans hægri hönd, guð almáttugur, getur fegrað úr þessu.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 17.maí síðastliðinn. Hefur borgin eitthvað fríkkað síðan þá?)
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en stórtenórinn Kristján Jóhannsson. Þó ég hafi sagt í málsháttabók minni: "Betri eru kynórar en tenórar," þá slagar Stjáni langt uppí rakan draum enda með bestu söngvurum sem Akureyri hefur alið. Hann er um þessar mundir að syngja óperuna Ommolettó í Nýja Bíói fyrir fullum kofa og ég ætla t.d. að spyrja hann út í það ævintýri og hvort hann væri til í að halda styrktartónleika fyrir íslensku "auðkýfingana" (ofurbótaþegana) sem nú eru að missa allt sitt, - og meira til í buxurnar. Er Dabbi saklaus englakrullóttur sprelligosi á einhjóli með lúður eða er hann kaldrifjaður bankaræningi sem vill vaða í Jón Ásgeir með vélsög og gleypa hann með húð og hári, einsog Jón sjálfur vill meina? Er Dabbi með stærra gin en Ljón Ásgeir? Þessu getur að sjálfsögðu enginn svarað nema Kristján Jóhannsson stórtenór og stórlax, innsti koppur í búri íslenskra yfirmafíósa.
Fyrri þætti má finna á síðu minni: www.stormsker.net
3 síðustu verða komnir inn annað kvöld.
Lífstíll | Breytt 2.10.2008 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.9.2008 | 06:31
Sannkristnir fjöldamorðingjar í Hvíta Húsinu
Senn lætur Bush af embætti forseta Bandaríkjanna. Hann segist útvalinn af guði til að leiða mannkynið í ljósið, - og er þá líklega að tala um hið skæra ljós kjarnorkusprengjunnar. Gáfnaljósið Bush hefur ekki drepið nema um nokkra tugi þúsunda óbreyttra borgara í Írak, sem þykir frekar slappur árangur hjá svo trúuðum leiðtoga.
Ljós heimsins
Næsti forseti Bandaríkjanna verður John McCain sálugi sem er með annan fótinn í gröfinni. Þegar báðir fæturnir verða komnir þangað þá tekur varaforsetinn Sarah Palin við en hún er sannkristin mannvitsbrekka einsog Bússi.
Hún vill engin höft á byssueign. Segir að stríðið í Írak sé verk guðs. (Það er reyndar verk Bússa en hann er handbendi guðs). Hún hafnar gróðurhúsaáhrifunum. Er á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Er fylgjandi dauðarefsingum. Er afar stolt af því að sonur sinn sé slátrari í Írak. Drepur dýr, sem skotveiðisjúklingur, sér til skemmtunnar. Er skilyrðislaust á móti fóstureyðingum. Vill bara drepa fædda einstaklinga, enda sannkristin manneskja. Segir að stríð við Rússa komi vel til greina. Hafnar þróunarkenningunni og vill að við förum 200 ár aftur í tímann og förum að kenna sköpunarsögu Biblíunnar sem vísindi í skólum. (Ætli hún sé Íslendingur?) Hún sagðist hafa notað Gamla testamentið sem leiðarvísi um það hvernig hún ætti að stjórna Alaska. (Er Palin galin?) Þetta kallast víst í USA að vera til hægri. Ég kalla þetta að vera með hausinn á bólakafi uppí borunni á sér.
(Vel að merkja: Þótt ótrúlegt megi virðast þá er allt sem hér er sagt um Palin satt og rétt. Engar lygar. Engar blogdylgjur og rugl!)
Þessi pistill birtist í 24 stundum, 20. september.
Gestur minn í síðasta þætti "Miðjunnar" á Útvarpi Sögu fm 99.4 var Jóhann Helgason. Í dag milli kl. 16:00 og 18:00 kemur hinn helmingurinn, semsé Magnús Þór Sigmundsson. Þau eru ófá góðu lögin sem steinliggja eftir Magga. Spurningarnar eru ekki færri sem brýnt er að fá svör við: Eru álfar kannski menn? Hvar er sveitin mín? Hvar er hóllinn minn? Hvar er húfan mín? Er Ísland land þitt eða mitt? Hvenær býstu við að Hómer Simpson verði forseti Bandaríkjanna?
Síðustu 2 þættir verða komnir inn á: www.stormsker.net í þessari viku.
Lífstíll | Breytt 2.10.2008 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
17.9.2008 | 06:46
Dagbækur Matthíasar og Framsóknarflokkurinn
Dagbækur Matthíasar eru um margt mikil skemmtilesning þó það hafi eflaust ekki verið ætlun hans, enda fv. ritstjóri Moggans. Ein fyndnasta færslan er þegar framsóknarmaðurinn Helgi S. Guðmundsson fv. formaður bankaráðs Landsbankans kemur áhyggjufullur á fund þeirra Matta og Styrmis til að fá ráð hjá þeim við því hvernig hann eigi að hrista af sér þær fullyrðingar Sverris Hermannssonar sem ýmsir virtust taka trúanlegar, að hann væri hálfviti." Matti og Styrmir sögðu honum að það væri erfitt að hrista slíkt af sér." Þar töluðu reynsluríkir menn. Konan mín segir að ég sé ekki hálfviti, sagði Helgi."
Og Matti heldur áfram: Þess má geta til gamans að Helgi sagði okkur að hann hefði verið í Heimdalli á sínum tíma en farið úr honum vegna þess að honum leizt ekki á blikuna, taldi að þar væru of margir ofjarlar hans og hann mundi ekki komast neitt áfram þar í flokki!! Einn þessara ofjarla var víst Styrmir Gunnarsson sem hafði gegnt formennsku í Heimdalli! Helgi sneri sér þá að Framsóknarflokknum og þar hefur honum vel vegnað."
Dvergar fara í lítil föt. Matti er þarna að lýsa á raunsæan hátt hverskonar fólk það er sem gengur í Framsóknarflokkinn. Lagið "I´m a loser" með Bítlunum kemur ósjálfrátt uppí hugann, svo og bókin "Aulabandalagið" eftir John Kennedy Toole.
Þar eð ég var heimagangur hjá Matta þegar ég var polli þá vil ég nota hér tækifærið og færa honum og fjölskyldu hans mínar bestu kveðjur.
Dverga(úr)kast
Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 23. ágúst.
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn söngvarinn og lagasmiðurinn góðkunni Jóhann Helgason. Eftir Jóa liggja fjölmörg frábær lög, svosem Karen Karen Karen Karen Karen Karen, Ástarsorg, Ég gef þér allt mitt líf, Söknuður og fleiri. Nú hefur einhver vondur maður útí heimi rænt laginu Söknuður og þess er ákaft saknað. Ég ætla að forvitnast um þetta skuggalega mál svo og mörg önnur glæpamál, t.d. hvort honum finnist koma til greina að sameina Kaupþing og Búnaðarbankann, nú eða Glitni og Lýsingu, nú eða jafnvel Seðlabankann og Sparisjóð Vestfirðinga.
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.9.2008 | 07:18
Hjálpum útlendingum, ekki Íslendingum
Það hefur margt jákvætt verið í fréttum undanfarna daga. Paul Ramses var t.d. heimtur úr viðbjóðslegu ítölsku hóteli þar sem hann þurfti að borða pizzur og pastaóþverra og fara í sturtu þrisvar á dag. Hræðilegt.
Þegar hann lenti hér á klakanum þá kyssti hann að sjálfsögðu flugstöðina og flugvöllinn í bak og fyrir einsog aðrir páfar. Ég hélt fyrst að þetta væri opinber heimsókn einhvers heimsfrægs blökkumannaleiðtoga en svo kom uppúr dúrnum að þetta var Paul Ramsens eða Ramstein eða Rambó eða hvað hann heitir nú þessi frómi sannsögli flóttamaður. Hefði hann verið sendur til Kenya, paradísar skotveiðimannsins, þá hefði hann vitaskuld verið eltur uppi af safaríveiðimönnum á jeppum og plaffaður niður.
Fleira jákvætt: Jóhanna Kristjónsdóttir safnaði tugum milljóna handa fátæku fólki hinumegin á hnettinum. Ekkert hefði komið í kassann hefði hún reynt að safna aurum handa fátækum Íslendingum, nema náttúrulega ef þeir hefðu misst allt sitt í snjóflóði. Þá hefði opnast fyrir flóðgáttir seðla.
Sjálfur er ég búinn að vera að hjálpa Nígeríunegrum með ómældum fjárframlögum svo þeir geti leyst út einhvern milljarðaarf eða eitthvað þessháttar. Þarf endilega að fá Bubba með mér í þessa arðbæru fjárfestingu.
Fleira jákvætt: Íslenskir utangarðsmenn í Reykjavík hafa fundið sér huggulegan ruslagám í miðbænum sem svefnstað svo það mun því pottþétt ekki væsa um þessa ágætu starfsstétt í vetur.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 6. september)
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00, verður gestur minn enginn annar en tónlistarmaðurinn og sjóræninginn síkáti Gylfi Ægisson. Gylfi hefur átt mörg klassísk lög einsog t.d. Í sól og sumaryl, Minning um mann og Stolt siglir fleyið mitt, en hann hefur einnig átt kærustur í hverri höfn enda siglt um öll heimsins höf. Hann mun segja mér af svaðilförum sínum í rúminu og úti á rúmsjó þar sem hann hefur margoft þurft að berjast við allskyns skrímsl. Þær eru ófáar hámerarnar sem hann hefur glímt við og þeir eru ófáir mannætuhákarlarnir sem hann hefur snúið úr hálsliðnum.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Lífstíll | Breytt 11.9.2008 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.8.2008 | 07:03
Feministur
Feministar hafa barist fyrir mörgu greindarlegu síðustu ár, t.d. því að börn á fæðingardeildum klæðist fötum í kynlausum litum; drengir skulu allsekki vera í bláum fötum og stúlkur allsekki í bleikum því þetta geti haft gríðarleg áhrif á afkomumöguleika stúlknanna í framtíðinni að sögn feminista. Augljóst.
Fleiri dæmi: Feministum finnst mjög niðurlægjandi að konur kallist ráðherrar." Konur tilheyri nefnilega ekki mannkyninu heldur kvenkyninu. Ég stakk uppá starfsheitinu ráðherfa" og þær hljóta að vera mjög ánægðar með það. Feministar kvörtuðu mikið yfir Smáralindarbæklingi en þar sást stúlka beygja sig eftir dóti. Stúlkur eiga ekki að beygja sig á myndum því þá er auðvitað verið að gefa til kynna að þær séu hórur.
Feministar fóru fram á að svæsin Toyota auglýsing yrði bönnuð en þar sást kona með pilsið svo langt upp um sig að það sást meiraðsegja í hnén á henni. Ógeðslegt. Feministar sögðu að það væri verið að hlutgera líkama kvenna. Einmitt. Toyota fór að tilmælum feminista og fjarlægði auglýsinguna, sem sýnir að það er til nokkuð sem heitir karlkellingar. Svoleiðis tuskur lúffa fyrir hverskyns rugli af ótta við að vera stimplaðar karlrembusvín. Ef fólki finnst öfgafeministar slæmir og allar þeirra hugmyndir, þá myndi ég nú segja að karlkellingarnar sem framfylgja kröfum þeirra væru 10 sinnum verri, - því slæm hugmynd er bara slæm hugmynd, en það að framkvæma slæma hugmynd af ótta við karlrembusvínsstimpilinn er alveg yfirmáta aulalegt. Öfgafeminismi er vondur í orði, en verri á borði.
Feministum hefur tekist að breyta sjálfri Biblíunni á þann hátt að ef Krissi segir t.d: Hey bræður, eru ekki allir í stuði?" þá er það í dag: Hey bræður og systur, eru ekki allir í stuði?," jafnvel þó engar systur hafi verið á svæðinu.
Orðið feministi" er karlkyns orð og því ber að breyta á stundinni í feminista," - hún femínistan. Must! Algjört Must!
Þessi pistill birtist í 24 stundum 9. ágúst, án djókmyndanna.
Minni á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni verður enginn annar en söngvaskáldið hárprúða Bjartmar Guðlaugsson. Munum spjalla um allt milli himins og jarðar, t.d. afhverju mömmur geifli alltaf á sér munninn þegar þær maskara augun og hvort borgarstjórinn í Reykjavík megi láta sjá sig á kaffihúsum í borginni eða eingöngu á Goldfinger í Kópavogi og hvort það eigi að grafa göng milli Vestmannaeyja og Grímseyjar.
Fyrri "Miðjur" má finna á: www.stormsker.net
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.8.2008 | 14:07
For(n)maður Framsóknar og viðhengi hans
Einsog frægt er orðið þá rauk Guðni Ágústsson for(n)maður Framsóknarflokksins út úr þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fyrir skömmu. Ég held að það hafi aldrei gerst fyrr að stjórnmálamaður hafi rifið af sér tólin og rokið á dyr í fússi úr miðju viðtali, og þá á ég náttúrulega við heyrnartólin. Það var tvennt sem ég tók eftir að honum mislíkaði stórlega, annarsvegar að ég skyldi hafa minnst á að hann væri sveitamaður og hinsvegar að ég skyldi ekki vera gapandi og slefandi af hrifningu yfir landbúnaðarkerfinu, semsé niðurgreiðslunum, beingreiðslunum, verndartollunum, ofurstyrkjunum, innflutningshöftunum og allri þeirri snilld.
Hann tók það afar skýrt fram að hann væri borgarbarn og neitaði því staðfastlega að hafa nokkurntíma átt belju og mér þykir það svolítið skrítin yfirlýsing af framsóknarmanni úr sveit, einu stærsta fjósi Suðurlands. Það er ekkert til að skammast sín fyrir að vera sveitamaður og beljuhluthafi.
Guðni fyrtist við þegar ég sagði að að íslenska landbúnaðarkerfið væri peningaklósett sem um 15 milljörðum af skattfé landsmanna væri sturtað niður í árlega. (Við eigum heimsmet í þessu einsog öðru gáfulegu). Hann sagði þessa upphæð kolranga en rökstuddi það ekki nánar heldur bifaðist af geðshræringu og hvolfdi í sig sjóðandi heitu kaffi. Hann fyrtist ennþá meira við og herti á kaffidrykkjunni þegar ég sagði að íslenskur landbúnaður hlyti að þola utanaðkomandi samkeppni úr því að hann væri svona stórkostlegur og allt væri baneitrað sem kæmi að utan. Neytendur ættu einfaldlega að fá að velja og hafna. Orðið samkeppni" virtist fá þennan fyrrum lambbúnaðarráðherra frjálshyggjustjórnarinnar" til að nötra af bræði. Hann lyftist upp úr stólnum yfir óskammfeilni minni þegar ég spurði hann hvort að landbúnaðurinn væri til fyrir okkur neytendur eða hvort að neytendur væru til fyrir landbúnaðinn. Kaffikannan hvarf ofan í hann. Það sem gerði útslagið varðandi flótta hans úr stúdíóinu var ekki beljudjók heldur einfaldlega skilningsleysi mitt á guðdómlegri framsóknarmennsku, afdalamennsku, einangrunarhyggju. Ég er eins lítill framsóknarmaður og hægt er að hugsa sér svo það er kannski ekkert skrítið að ég skyldi fara í þær taugar á Guðna sem hann var ekki búinn á. En auðvitað átti hann ekki að flýja út úr stúdíóinu einsog ofverndað niðurgreitt fjallalamb á leið á grillið heldur bara að svara spurningum mínum og beina mér, afvegaleiddum sauðinum, á rétta braut, semsé á hinn beina og breiða framsóknarveg sem liggur til himnaríkis sérhagsmuna og afturhalds. Hann æddi rauðþrútinn af bræði fram á gang og fór fram á það við lögfræðing Sögu að þessi þáttur yrði aldrei endurfluttur og að ég yrði rekinn. Bíddu, er gæinn í kínverska kommúnistaflokknum? Vill hann hefta tjáningarfrelsið líkt og innflutning á búvörum? Er ekki nóg að þroski Framsóknar sé heftur? Kannski finnst Íslendingum sjálfsagt að stjórnmálamaður skipti sér af frjálsri útvarpsstöð með þessum hætti enda erum við vanir pólitískt skipuðu útvarpsráði frá því við kveiktum fyrst á varpinu, en þetta getur varla talist í lagi árið 2008.
Í kjölfar þáttarins geystist framsóknarþingmaðurinn Bjarni Harðarson fram á bloggvöllinn til að þrífa upp eftir for(n)manninn og sagði að ég hefði orðið mér til skammar en tók jafnframt fram að hann hefði ekki hlustað á þennan umrædda þátt og ætlaði sér aldrei að gera það. (Sjá: http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/603970/). Greindarlegt. Framsóknarlegt. Ef að Guðni og framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að það hafi verið ég sem hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni hversvegna var Guðna þá svona mikið í mun að þátturinn yrði ekki endurfluttur en mér ekki? Bjarni Harðarson laug því uppá mig á moggabloggi sínu að ég hefði viðhaft ærumeiðandi ummæli um Steingrím J., Árna Mathiesen og Sigurbjörn biskup. Þessu hefði Bjagni líklegast ekki logið ef hann hefði hlustað á þáttinn, en sumir kjósa að skjóta fyrst og spyrja svo, og þykir kúl. Hvað yrði sagt um bókagagnrýnanda sem rakkaði niður verk opinberlega eingöngu af afspurn nokkurra félaga? Hann yrði réttilega sagður sauðheimskur og rekinn á nóinu.
Til fróðleiks fyrir Framsókn og aðra má geta þess að það má hlusta á þáttinn og hneykslast á undirrituðum á www.stormsker.net.
Eina sem gæti kallast ærumeiðandi ummæli viðvíkjandi þættinum er þessi lygi Bjarna Harðarsonar þingmanns að ég hafi viðhaft ærumeiðandi ummæli. Það má skoða það mál. Endurtek: Þann dóm felldi hann í ofanálag án þess að hafa heyrt þáttinn, sem hlýtur að teljast heims(ku)met?! Mér finnst það ábyrgðarhluti af mönnum sem hafa þann starfa að setja okkur almúganum lög að þeir skuli í valdhroka sínum ljúga opinberlega uppá fólk sem þeir starfa í umboði fyrir. Ég, einsog aðrir Íslendingar, er að sjálfsögðu orðinn vanur því að stjórnmálamenn ljúgi að mér en ég hef ekki átt því að venjast að stjórnmálamenn ljúgi uppá mig á opinberum vettvangi. En það má kannski venjast því frá þeim einsog öðrum. Ég veit ekki á hvaða vegferð Framsóknarflokkurinn er en hann sækir allavega ekki fram á við. Meiraðsegja nafn flokksins stenst ekki skoðun. Eftir fáein ár mun Guðni segja við Bjarna: Þar sem 2 framsóknarmenn koma saman á flokksþingi, þar er 100% mæting."
Þessi grein birtist í 24 Stundum, 12. ágúst.
Lífstíll | Breytt 24.8.2008 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
2.8.2008 | 21:24
Þáttur Stormskers með Guðna ekki endurtekinn
Einsog hlustendur Útvarps Sögu hafa eflaust tekið eftir þá var þátturinn með mér og Guðna Ágústssyni ekki endurtekinn klukkan 4 í dag einsog til stóð og búið var að auglýsa villt og galið. Ég hef sjálfur ekkert heyrt í Arnþrúði vinkonu minni og fæ yfirleitt síðastur manna að vita hvenær þáttur minn er endurtekinn, en ég trúi því ekki að óreyndu að Arnþrúður láti framsóknarforkólfana beygja sig og breyta sinni frjálsu og óháðu útvarpsstöð í ófrjálsa og háða. Ef að þátturinn verður endurtekinn þá vona ég fyrir hönd hlustenda að það verði ekki á einhverjum fáránlegum tíma þegar allir eru í móki. Ef hann verður hinsvegar ekki endurtekinn þá er ég hættur med det samme því ég myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum vilja starfa á fjölmiðli sem væri í vasanum á stjórnmálamennum sem reyndu að hefta mitt tjáningarfrelsi. En sem ég segi: Ég trúi því ekki að kröftug spaugsöm manneskja einsog Arnþrúður láti einhverja grafalvarlega sveppi segja sér fyrir verkum.
Ég þykist vita að Halldór E og Markús Þórhallsson séu ekki beint ánægðir með það frekar en ég að hafa verið að kynna endurflutning þáttarins á tilteknum tíma sem svo var ekkert að marka, og ég hef aldeilis fengið að heyra það í mín eyru að hlustendur eru ekki par ánægðir heldur. En ég get því miður ekki beðist afsökunar á einhverju sem ég ræð engu um.
Guðni fór fram á það við Arnþrúði strax eftir viðtalið að þátturinn yrði ekki endurfluttur og að ég yrði rekinn. Ef að Guðni og litlu framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að ég hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni sjálfur hversvegna er þeim þá svona mikið í mun að þátturinn verði ekki endurtekinn? Framsóknarmenn og aðrir stjórnmálamenn verða að fara að skilja að þeir eiga ekkert með að vera að grauta í frjálsum fjölmiðlum og reyna að hafa áhrif á hvað þar er sagt og gert. Læt meira heyra í mér síðar um þetta mál.
Þátturinn verður kominn inná heimasíðu mína á mánudaginn: www.stormsker.net hvað svo sem afturhaldssamir framsóknarstrumpar reyna að röfla í mér.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)
30.7.2008 | 08:07
Séríslensk galin verðlagning
Áður en þungaskattur var afnuminn á klakanum þá var dísilolían helmingi ódýrari en bensín. Núna er lítrinn af henni um 20 krónum dýrari þrátt fyrir að vera mun umhverfisvænna eldsneyti og margfalt ódýrara víðasthvar annarsstaðar í heiminum. Hvernig skyldi nú standa á þessum séríslenska verðmun? Jú dísilbílar eru nefnilega neyslugrennri og það er hægt að komast lengra á lítra af dísil en bensíni. Það skal sko enginn fá að græða á því að vera á dieselbíl jafnvel þótt hann mengi mun minna. Nei, ekki hér. Á sama tíma tala hugsuðirnir á Alþingi um að það beri að minnka loftmengun. Einmitt.
Sama víðáttuvitlausa séríslenska verðlagningin er viðhöfð í Á.T.V.R. Þar eru vínin ekki verðlögð eftir gæðum heldur fyrst og fremst eftir alkóhólsmagni. Þannig getur t.d. handónýtt vín sem kostar 300 kall í siðmenntuðum löndum kostað hér á Íslandi 2000 kall. Víða erlendis getur gott rauðvín verið dýrara en rótsterkt vín, en hér er eingöngu rýnt í prósentustigið. Svona brennivínslegin alkóhólistahugsun" í verðlagningu vína þekkist hvergi í veröldinni nema ef vera skyldi í Noregi og Svíþjóð, tveimur af þremur leiðinlegustu löndum heimsins.
Grænmeti er hér dýrast í heimi en ætti sem hollustufæði að vera hræódýrt. Með svona galinni verðlagningu og öfugsnúinni neyslustýringu á öllum sviðum er verið að framleiða vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.
(Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum 26. júlí).
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu Fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en Guðni Ágústsson sprelligosi og fyrrverandi lambbúnaðarráðherra. Við munum fara vítt og breitt yfir sviðið sviðið og líklegast mun hann taka sér stöðu fyrir aftan eldavélina og herma eftir Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.7.2008 | 07:43
Frelsi til að gagnrýna "frjálshyggjuna"
Pólitíkin hér á Los Klakos er persónuleg og sveitó. Fólk límir sig á ákveðið lið og reynir síðan að aðlaga sannleikann að flokksskoðuninni í stað þess að aðlaga skoðanir sínar að sannleikanum.
Þegar ég segist t.d. líta á gjafakvótakerfið sem óréttlátt nonsens, landbúnaðarhaftakerfið sem peningaklósett og Íraksstríðið sem óráðsrugl þá halda sumir að maður hljóti að hafa eitthvað persónulega á móti Davíð Oddssyni.
Sumum ósjálfstæðum Sjálfstæðismönnum finnst að ég sem hægrisinni eigi helst að tapa allri sjálfstæðri hugsun um leið og Sjálfstæðisflokkurinn opnar munninn. Bush-syndromið: Þeir sem ekki eru með mér í einu og öllu eru á móti mér." Styðja frjálshyggjumenn ekki frelsi til að gagnrýna frjálshyggjuna?" Er hér kommúnísk "frjálshyggja?"
Stjórnmálakerfi umbreytast oft í trúarbrögð, hvort heldur spámaðurinn heitir Marx eða Friedman. Þeir sem halda að allur sannleikur heimsins rúmist í einni kenningu eru trúmenn, líkt og stalínistinn Þórbergur. Menn verða að halda gagnrýninni hugsun ef þeir vilja halda trúverðugleika því annars þurfa þeir að halda kjafti fyrir kosningar.
Hverskonar frjálshyggja er það sem tekur því sem árásum á Foringjann ef maður leyfir sér á stundum að vera á öðru máli en hann og Flokkurinn? Máski stendur hin séríslenska frjálshyggja" of nálægt kommúnismanum um margt, sérstaklega hvað varðar útþenslu ríkisbáknsins og bælda skoðanatjáningu.
Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum, 28. júní.
Minni vitaskuld á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni er glaumgosinn og reiðhrókurinn Fjölnir Þorgeirsson. Honum hefur einstaka sinnum brugðið fyrir í Séð og Heyrt og í nýjasta heftinu segist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kellingum og öllu sem þeim tengist. Þetta alvarlega mál þarf að spyrja hann aðeins nánar út í. Ætlar hann alfarið að snúa sér að hryssunum og dýrunum í sveitinni eða ætlar hann bara að toga í rörið á sér það sem eftir er? Hver djöfullinn er eiginlega að gerast með þennan mann?! Ætlar hann að bregðast sínum skyldum einsog ríkisstjórnin?!!!
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
16.7.2008 | 06:13
Skriffinnska ofar mannúð
Á meðan Ingibjörg Sólbrún er uppfyrir haus að sinna mannúðarmálum í Öfganistan þá eru mannréttindi fótumtroðin heimafyrir. Gjafakvótakerfið gott dæmi. Ramses hefur greinilega átt fárra kosta völ úr því hann ákvað að koma hingað á kaldan klakann; kaldasta og hjartakaldasta blýantanaggrísabæli á heimi. Hefði hann verið austur evrópskur sakavottorðslaus kaldrifjaður glæpon þá væri hann hér kominn með fasta búsetu og líklega orðinn ráðherra í ríkisstjórninni. Stjórnvöld eiga bara að ímynda sér að þau séu Davíð Oddsson og að Ramses sé Fisher og málið dautt.
Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 12. júlí
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag klukkan 16:00 verður gestur minn hin skelegga athafnakona Jónína Benediktsdóttir sem hefur lítið álit á Útvarpi Sögu og hefur munninn fyrir neðan nefið og hökuna fyrir neðan munninn og hálsinn fyrir neðan hökuna og svo mætti áfram telja þangað til maður væri orðinn dónalegur. Hún mun vafalaust tjá sig um Baugsmálið, stólpípur og margt annað þarft og þrifalegt. Þátturinn verður endurfluttur á laugardaginn klukkan 16:00 - 18:00. Þennan þátt sem og fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net á mánudaginn.
Lífstíll | Breytt 18.7.2008 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)