23.8.2008 | 14:07
For(n)maður Framsóknar og viðhengi hans
Einsog frægt er orðið þá rauk Guðni Ágústsson for(n)maður Framsóknarflokksins út úr þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fyrir skömmu. Ég held að það hafi aldrei gerst fyrr að stjórnmálamaður hafi rifið af sér tólin og rokið á dyr í fússi úr miðju viðtali, og þá á ég náttúrulega við heyrnartólin. Það var tvennt sem ég tók eftir að honum mislíkaði stórlega, annarsvegar að ég skyldi hafa minnst á að hann væri sveitamaður og hinsvegar að ég skyldi ekki vera gapandi og slefandi af hrifningu yfir landbúnaðarkerfinu, semsé niðurgreiðslunum, beingreiðslunum, verndartollunum, ofurstyrkjunum, innflutningshöftunum og allri þeirri snilld.
Hann tók það afar skýrt fram að hann væri borgarbarn og neitaði því staðfastlega að hafa nokkurntíma átt belju og mér þykir það svolítið skrítin yfirlýsing af framsóknarmanni úr sveit, einu stærsta fjósi Suðurlands. Það er ekkert til að skammast sín fyrir að vera sveitamaður og beljuhluthafi.
Guðni fyrtist við þegar ég sagði að að íslenska landbúnaðarkerfið væri peningaklósett sem um 15 milljörðum af skattfé landsmanna væri sturtað niður í árlega. (Við eigum heimsmet í þessu einsog öðru gáfulegu). Hann sagði þessa upphæð kolranga en rökstuddi það ekki nánar heldur bifaðist af geðshræringu og hvolfdi í sig sjóðandi heitu kaffi. Hann fyrtist ennþá meira við og herti á kaffidrykkjunni þegar ég sagði að íslenskur landbúnaður hlyti að þola utanaðkomandi samkeppni úr því að hann væri svona stórkostlegur og allt væri baneitrað sem kæmi að utan. Neytendur ættu einfaldlega að fá að velja og hafna. Orðið samkeppni" virtist fá þennan fyrrum lambbúnaðarráðherra frjálshyggjustjórnarinnar" til að nötra af bræði. Hann lyftist upp úr stólnum yfir óskammfeilni minni þegar ég spurði hann hvort að landbúnaðurinn væri til fyrir okkur neytendur eða hvort að neytendur væru til fyrir landbúnaðinn. Kaffikannan hvarf ofan í hann. Það sem gerði útslagið varðandi flótta hans úr stúdíóinu var ekki beljudjók heldur einfaldlega skilningsleysi mitt á guðdómlegri framsóknarmennsku, afdalamennsku, einangrunarhyggju. Ég er eins lítill framsóknarmaður og hægt er að hugsa sér svo það er kannski ekkert skrítið að ég skyldi fara í þær taugar á Guðna sem hann var ekki búinn á. En auðvitað átti hann ekki að flýja út úr stúdíóinu einsog ofverndað niðurgreitt fjallalamb á leið á grillið heldur bara að svara spurningum mínum og beina mér, afvegaleiddum sauðinum, á rétta braut, semsé á hinn beina og breiða framsóknarveg sem liggur til himnaríkis sérhagsmuna og afturhalds. Hann æddi rauðþrútinn af bræði fram á gang og fór fram á það við lögfræðing Sögu að þessi þáttur yrði aldrei endurfluttur og að ég yrði rekinn. Bíddu, er gæinn í kínverska kommúnistaflokknum? Vill hann hefta tjáningarfrelsið líkt og innflutning á búvörum? Er ekki nóg að þroski Framsóknar sé heftur? Kannski finnst Íslendingum sjálfsagt að stjórnmálamaður skipti sér af frjálsri útvarpsstöð með þessum hætti enda erum við vanir pólitískt skipuðu útvarpsráði frá því við kveiktum fyrst á varpinu, en þetta getur varla talist í lagi árið 2008.
Í kjölfar þáttarins geystist framsóknarþingmaðurinn Bjarni Harðarson fram á bloggvöllinn til að þrífa upp eftir for(n)manninn og sagði að ég hefði orðið mér til skammar en tók jafnframt fram að hann hefði ekki hlustað á þennan umrædda þátt og ætlaði sér aldrei að gera það. (Sjá: http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/603970/). Greindarlegt. Framsóknarlegt. Ef að Guðni og framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að það hafi verið ég sem hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni hversvegna var Guðna þá svona mikið í mun að þátturinn yrði ekki endurfluttur en mér ekki? Bjarni Harðarson laug því uppá mig á moggabloggi sínu að ég hefði viðhaft ærumeiðandi ummæli um Steingrím J., Árna Mathiesen og Sigurbjörn biskup. Þessu hefði Bjagni líklegast ekki logið ef hann hefði hlustað á þáttinn, en sumir kjósa að skjóta fyrst og spyrja svo, og þykir kúl. Hvað yrði sagt um bókagagnrýnanda sem rakkaði niður verk opinberlega eingöngu af afspurn nokkurra félaga? Hann yrði réttilega sagður sauðheimskur og rekinn á nóinu.
Til fróðleiks fyrir Framsókn og aðra má geta þess að það má hlusta á þáttinn og hneykslast á undirrituðum á www.stormsker.net.
Eina sem gæti kallast ærumeiðandi ummæli viðvíkjandi þættinum er þessi lygi Bjarna Harðarsonar þingmanns að ég hafi viðhaft ærumeiðandi ummæli. Það má skoða það mál. Endurtek: Þann dóm felldi hann í ofanálag án þess að hafa heyrt þáttinn, sem hlýtur að teljast heims(ku)met?! Mér finnst það ábyrgðarhluti af mönnum sem hafa þann starfa að setja okkur almúganum lög að þeir skuli í valdhroka sínum ljúga opinberlega uppá fólk sem þeir starfa í umboði fyrir. Ég, einsog aðrir Íslendingar, er að sjálfsögðu orðinn vanur því að stjórnmálamenn ljúgi að mér en ég hef ekki átt því að venjast að stjórnmálamenn ljúgi uppá mig á opinberum vettvangi. En það má kannski venjast því frá þeim einsog öðrum. Ég veit ekki á hvaða vegferð Framsóknarflokkurinn er en hann sækir allavega ekki fram á við. Meiraðsegja nafn flokksins stenst ekki skoðun. Eftir fáein ár mun Guðni segja við Bjarna: Þar sem 2 framsóknarmenn koma saman á flokksþingi, þar er 100% mæting."
Þessi grein birtist í 24 Stundum, 12. ágúst.
Bloggar | Breytt 24.8.2008 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
2.8.2008 | 21:24
Þáttur Stormskers með Guðna ekki endurtekinn
Einsog hlustendur Útvarps Sögu hafa eflaust tekið eftir þá var þátturinn með mér og Guðna Ágústssyni ekki endurtekinn klukkan 4 í dag einsog til stóð og búið var að auglýsa villt og galið. Ég hef sjálfur ekkert heyrt í Arnþrúði vinkonu minni og fæ yfirleitt síðastur manna að vita hvenær þáttur minn er endurtekinn, en ég trúi því ekki að óreyndu að Arnþrúður láti framsóknarforkólfana beygja sig og breyta sinni frjálsu og óháðu útvarpsstöð í ófrjálsa og háða. Ef að þátturinn verður endurtekinn þá vona ég fyrir hönd hlustenda að það verði ekki á einhverjum fáránlegum tíma þegar allir eru í móki. Ef hann verður hinsvegar ekki endurtekinn þá er ég hættur med det samme því ég myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum vilja starfa á fjölmiðli sem væri í vasanum á stjórnmálamennum sem reyndu að hefta mitt tjáningarfrelsi. En sem ég segi: Ég trúi því ekki að kröftug spaugsöm manneskja einsog Arnþrúður láti einhverja grafalvarlega sveppi segja sér fyrir verkum.
Ég þykist vita að Halldór E og Markús Þórhallsson séu ekki beint ánægðir með það frekar en ég að hafa verið að kynna endurflutning þáttarins á tilteknum tíma sem svo var ekkert að marka, og ég hef aldeilis fengið að heyra það í mín eyru að hlustendur eru ekki par ánægðir heldur. En ég get því miður ekki beðist afsökunar á einhverju sem ég ræð engu um.
Guðni fór fram á það við Arnþrúði strax eftir viðtalið að þátturinn yrði ekki endurfluttur og að ég yrði rekinn. Ef að Guðni og litlu framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að ég hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni sjálfur hversvegna er þeim þá svona mikið í mun að þátturinn verði ekki endurtekinn? Framsóknarmenn og aðrir stjórnmálamenn verða að fara að skilja að þeir eiga ekkert með að vera að grauta í frjálsum fjölmiðlum og reyna að hafa áhrif á hvað þar er sagt og gert. Læt meira heyra í mér síðar um þetta mál.
Þátturinn verður kominn inná heimasíðu mína á mánudaginn: www.stormsker.net hvað svo sem afturhaldssamir framsóknarstrumpar reyna að röfla í mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)
30.7.2008 | 08:07
Séríslensk galin verðlagning
Áður en þungaskattur var afnuminn á klakanum þá var dísilolían helmingi ódýrari en bensín. Núna er lítrinn af henni um 20 krónum dýrari þrátt fyrir að vera mun umhverfisvænna eldsneyti og margfalt ódýrara víðasthvar annarsstaðar í heiminum. Hvernig skyldi nú standa á þessum séríslenska verðmun? Jú dísilbílar eru nefnilega neyslugrennri og það er hægt að komast lengra á lítra af dísil en bensíni. Það skal sko enginn fá að græða á því að vera á dieselbíl jafnvel þótt hann mengi mun minna. Nei, ekki hér. Á sama tíma tala hugsuðirnir á Alþingi um að það beri að minnka loftmengun. Einmitt.
Sama víðáttuvitlausa séríslenska verðlagningin er viðhöfð í Á.T.V.R. Þar eru vínin ekki verðlögð eftir gæðum heldur fyrst og fremst eftir alkóhólsmagni. Þannig getur t.d. handónýtt vín sem kostar 300 kall í siðmenntuðum löndum kostað hér á Íslandi 2000 kall. Víða erlendis getur gott rauðvín verið dýrara en rótsterkt vín, en hér er eingöngu rýnt í prósentustigið. Svona brennivínslegin alkóhólistahugsun" í verðlagningu vína þekkist hvergi í veröldinni nema ef vera skyldi í Noregi og Svíþjóð, tveimur af þremur leiðinlegustu löndum heimsins.
Grænmeti er hér dýrast í heimi en ætti sem hollustufæði að vera hræódýrt. Með svona galinni verðlagningu og öfugsnúinni neyslustýringu á öllum sviðum er verið að framleiða vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.
(Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum 26. júlí).
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu Fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en Guðni Ágústsson sprelligosi og fyrrverandi lambbúnaðarráðherra. Við munum fara vítt og breitt yfir sviðið sviðið og líklegast mun hann taka sér stöðu fyrir aftan eldavélina og herma eftir Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.7.2008 | 07:43
Frelsi til að gagnrýna "frjálshyggjuna"
Pólitíkin hér á Los Klakos er persónuleg og sveitó. Fólk límir sig á ákveðið lið og reynir síðan að aðlaga sannleikann að flokksskoðuninni í stað þess að aðlaga skoðanir sínar að sannleikanum.
Þegar ég segist t.d. líta á gjafakvótakerfið sem óréttlátt nonsens, landbúnaðarhaftakerfið sem peningaklósett og Íraksstríðið sem óráðsrugl þá halda sumir að maður hljóti að hafa eitthvað persónulega á móti Davíð Oddssyni.
Sumum ósjálfstæðum Sjálfstæðismönnum finnst að ég sem hægrisinni eigi helst að tapa allri sjálfstæðri hugsun um leið og Sjálfstæðisflokkurinn opnar munninn. Bush-syndromið: Þeir sem ekki eru með mér í einu og öllu eru á móti mér." Styðja frjálshyggjumenn ekki frelsi til að gagnrýna frjálshyggjuna?" Er hér kommúnísk "frjálshyggja?"
Stjórnmálakerfi umbreytast oft í trúarbrögð, hvort heldur spámaðurinn heitir Marx eða Friedman. Þeir sem halda að allur sannleikur heimsins rúmist í einni kenningu eru trúmenn, líkt og stalínistinn Þórbergur. Menn verða að halda gagnrýninni hugsun ef þeir vilja halda trúverðugleika því annars þurfa þeir að halda kjafti fyrir kosningar.
Hverskonar frjálshyggja er það sem tekur því sem árásum á Foringjann ef maður leyfir sér á stundum að vera á öðru máli en hann og Flokkurinn? Máski stendur hin séríslenska frjálshyggja" of nálægt kommúnismanum um margt, sérstaklega hvað varðar útþenslu ríkisbáknsins og bælda skoðanatjáningu.
Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum, 28. júní.
Minni vitaskuld á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni er glaumgosinn og reiðhrókurinn Fjölnir Þorgeirsson. Honum hefur einstaka sinnum brugðið fyrir í Séð og Heyrt og í nýjasta heftinu segist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kellingum og öllu sem þeim tengist. Þetta alvarlega mál þarf að spyrja hann aðeins nánar út í. Ætlar hann alfarið að snúa sér að hryssunum og dýrunum í sveitinni eða ætlar hann bara að toga í rörið á sér það sem eftir er? Hver djöfullinn er eiginlega að gerast með þennan mann?! Ætlar hann að bregðast sínum skyldum einsog ríkisstjórnin?!!!
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.7.2008 | 06:13
Skriffinnska ofar mannúð
Á meðan Ingibjörg Sólbrún er uppfyrir haus að sinna mannúðarmálum í Öfganistan þá eru mannréttindi fótumtroðin heimafyrir. Gjafakvótakerfið gott dæmi. Ramses hefur greinilega átt fárra kosta völ úr því hann ákvað að koma hingað á kaldan klakann; kaldasta og hjartakaldasta blýantanaggrísabæli á heimi. Hefði hann verið austur evrópskur sakavottorðslaus kaldrifjaður glæpon þá væri hann hér kominn með fasta búsetu og líklega orðinn ráðherra í ríkisstjórninni. Stjórnvöld eiga bara að ímynda sér að þau séu Davíð Oddsson og að Ramses sé Fisher og málið dautt.
Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 12. júlí
Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag klukkan 16:00 verður gestur minn hin skelegga athafnakona Jónína Benediktsdóttir sem hefur lítið álit á Útvarpi Sögu og hefur munninn fyrir neðan nefið og hökuna fyrir neðan munninn og hálsinn fyrir neðan hökuna og svo mætti áfram telja þangað til maður væri orðinn dónalegur. Hún mun vafalaust tjá sig um Baugsmálið, stólpípur og margt annað þarft og þrifalegt. Þátturinn verður endurfluttur á laugardaginn klukkan 16:00 - 18:00. Þennan þátt sem og fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net á mánudaginn.
Bloggar | Breytt 18.7.2008 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.6.2008 | 07:14
Reykingar og hávaðamengun
Við sátum um kvöld á rómó veitingastað hér í borg, ég og vinkona mín. Kertaljós, notaleg tónlist í bakgrunni, góður matur - og kelling með organdi smákrakka á næsta borði. Hún hefði allt eins getað mætt með loftbor. Ég spurði þjóninn hvort ég mætti kveikja mér í vindli, það væri örugglega minni mengun af honum en öskurapanum. Nei, ég mátti það ekki, ég yrði að sýna tillitssemi. Ég spurði þá hvort hann væri til í að sýna þá tillitssemi að biðja mömmuna við hliðina að sýna gestum þá tillitssemi að borða heima hjá sér með loftbornum sínum. Nei, það vildi hann ekki. Ég spurði: Eru reykingar bannaðar en hávaðamengun leyfð á veitingastöðum þar sem fólk vill njóta næðis? Hann heyrði ekki hvað ég sagði fyrir öskrum og gekk í burtu. Stemman var í molum og við hröðuðum okkur út með hlustaverk.
Daginn eftir skruppum við til útlanda. Flugvélin var þéttsetin. Langt flug fyrir höndum. Fyrir framan okkur sat kelling með hágrenjandi smákrakka í fanginu. Einmitt það sem vantaði. Farþegarnir hrylltu sig og fóru að raða í sig svefntöflum og róandi, allir nema litli loftborinn sem var í gangi á öskrandi ferð alla leiðina. Engum kom dúr á auga. Ein lítil róandi barnatafla í réttan munn og öll vélin hefði steinsofnað. Kannski vantar sérbása fyrir ómálga flugdólga? Ég ætlaði að fara að kveikja mér í vindli en mundi að ég varð að sýna tillitssemi.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum 14. júní)
Í þætti mínum "Miðjunni" í dag klukkan 16:00 á Útvarpi Sögu fm 99.4 verður gestur minn Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaskáld. Hann var í spjalli hjá mér fyrir fáeinum vikum og þar sem hann er mikill sagnabrunnur þá er ekki annað hægt en að rekja aðeins fleiri garnir úr honum, - allavega eina ósmurða görn.
Síðustu 4 þættir verða komnir inn á síðu mína www.stormsker.net fyrir helgi. Njótið vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
18.6.2008 | 05:39
Nýskotinn nýbúi
Í textavarpinu í gær stóð:
"Hvítabjörninn á Skaga hefur verið felldur" (fallegur feldur).
"Björninn var aldraður og kvenkyns."
Einmitt: Aldraður og kvenkyns. Semsagt tvær góðar og gildar ástæður til þess að skjóta hann.
Stefán (lík)Vagn Stefánsson yfirlögga á Sauðarkróki sagði að dýrið hefði tekið á rás í átt til sjávar "og því var ekki annað í stöðunni en að skjóta það, því miður."
Hefði dýrinu semsagt verið hlíft ef það hefði tekið á rás í átt til byggða? Í hvaða átt hefði dýrið átt að stefna til að sleppa lifandi? Það hafði vit á að yfirgefa klakann svo fljótt sem auðið var en var skotið á flótta. (Ekki gott til eftirbreytni fyrir nýbúa).
Meiraðsegja Björgólfur Thor bauðst til að standa straum af kostnaði við björgun dýrsins en allt kom fyrir ekki. Björninn reyndi að flýja land og það er nokkuð sem verður aldrei liðið. Þar að auki var hann aldraður og kvenkyns í þokkabót og þá segir það sig náttúrulega sjálft að hann var dauður um leið og hann steig á land.
Mér finnst að við eigum að taka vel á móti öldruðum dösuðum ísbjörnum. Við eigum að gefa þeim eitthvað annað í vömbina en kúlu. Við eigum ekki að fara með þá einsog gamla fólkið. Við eigum að svæfa þá og flytja úr landi, svona svipað og flestar þjóðir vilja gera við múslima.
Íslenskt dýralíf
Gestur þáttar míns, Miðjunnar, á Útvarpi Sögu í dag milli 16:00 og 18:00 verður hinn óumdeildi Hannes Hólmsteinn Gissurarson, en hann var einnig gestur minn síðasta miðvikudag en þá rakti hann t.d. rómantískan vinskap sinn við Auði Laxness og Jón Ólafsson Skífubónda, en þau tvö hefur Hannes sem kunnugt er styrkt fjárhagslega og staðið við bakið á í gegnum þykkt og þunnt.
(Það má hlusta á fyrri þætti á www.stormsker.net. Síðustu 3 þættir eru ekki enn komnir inn en það gerist fljótlega).
Bloggar | Breytt 19.6.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
14.5.2008 | 07:56
Bárujárnsbyltingin ríður húsum
Skömmu eftir heimsstyrjöldina síðari kom hingað til lands bandarískur byggingaspesíalisti í skemmtiferð. Ekki veit ég hvernig honum datt það í hug, en hann fékk sér víst göngutúr um borgina og skoðaði húsagerðarlistina. Eftir upplifunina sagði hann við íslenskan blaðamann: Djöfull hafiði farið illa út úr stríðinu maður! Hann gapti af undrun þegar honum var tjáð að það hefði engin sprengja fallið á borgina önnur en sú sem býr í íslensku smekkleysi.
(Íslensk húsagerðarlist)
Nú er búið að ákveða að eyða milljarði í kaup og samantjöslun á tveimur þeim aumustu og stagbættustu óþverravinnuskúrum sem sést hafa á byggðu bóli, að skaðbrenndum indíánatjöldum meðtöldum. Í kjölfarið á svo að friða allt annað aldargamalt fúaspýtnarusl og bárujárnsdrasl sem finnst við Laugaveg og nágrenni, fyrir ófáa milljarða.
Sögufrægt ofvitahús Þórbergs Þórðarsonar að Skólavörðustíg 10 er hinsvegar að sjálfsögðu búið að flytja uppí Árbæ eða sprengja í loft upp. Allt samkvæmt alíslenskri smekkvísi og snilld.
Á sama tíma og húsafriðunaræði ríður húsum þá er verið að buffa og brytja fólk í smátt í miðbænum og þar með talið á eftirlitsmyndavélalausum Laugaveginum því það eru ekki til peningar í almennilega löggæslu, nema þegar kemur að því að hakka niður vörubílstjóra og þeirra stuðningsmenn sem neita að borga hæsta elsdneytisverð í heimi.
Taðreyktir hippar væla um að það beri að friða einhverja rottuholu sem kallast Sirkus og fatta ekki að borgin er einn allsherjar Sirkus. Væri nokkuð galið að byrja á því að friða fólkið í bænum áður en við förum að friða hjallana í bænum? Við eigum ekki að friða kofana fyrr en við höfum efni á að friða fólkið því kofarnir eru til fyrir fólkið en ekki öfugt.
(Þetta fallega hús mætti nú gera
upp fyrir lítinn pening, svosem 1 milljarð)
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum 8. febrúar síðastliðinn)
Minni vitaskuld á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna," sem er í dag, miðvikudaginn 14. maí, á Útvarpi Sögu 99.4 milli 16:00 og 18:00. Gestur að þessu sinni er Helgi Hóseason, fyrsti og þrautseigasti mannréttindabaráttumaður Íslands.
Fyrri þætti má heyra á www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.5.2008 | 08:28
Sofandi sauðir (Silence of the lambs)
Einhverjar hörðustu lögrugluaðgerðir Íslandssögunnar fóru fram fyrir 10 dögum. Og gegn hverjum beindust þær? Eiturlyfjabarónum? Glæpaklíkum? Fjöldamorðingjum? Nei, vörubílstjórum að sjálfsögðu. Hættulegustu djöflum landsins. Þessi fól vilja geta lifað af kaupinu sínu og neita að borga hæsta eldsneytisverð í heimi og hafa reynt að ná eyrum ráðamanna í aðeins þrjú ár. Svona öpum á sko ekki að sýna neina linkind. Þeir gætu skapað vont fordæmi og allt gæti hér farið úr böndunum.
Íslendingum er afar illa við ókurteisleg mótmæli og vilja helst bara mótmæla klámráðstefnum og nektarstöðum og það á penan hátt einsog teprulegum blævængjafrúm sæmir. Hafa þeir mótmælt kröftuglega stærsta ráni Íslandssögunnar, gjafakvótakerfinu? Nei, bara maldað í móinn. Hafa þeir mótmælt landbúnaðarkerfinu? Verndartollum? Innflutningshöftum? Nei, þeir elska heimspeki Bjarts í Sumarhúsum og dýrka allt sem íslenskt er og hafa illan bifur á öllu útlensku sem gæti bætt afkomu þeirra. Eru núna fyrst að fatta að krónan er jafn reikul og veik og þeir sjálfir.
Hafa þeir mótmælt spillingarútsölu eignanna á varnarsvæðinu á Vellinum? Nei. Hafa þeir mótmælt hæsta matvöruverði í heimi? Hæstu bankavöxtum í heimi? Hæstu tryggingaiðgjöldum í heimi? Nei, bara dæst og unnið meira að hætti þrælslundaðra bláeygðra hlandaula. Kjörorð okkar Íslendinga er: Don´t Wake Me Up! Kannski að vörubílstjórar séu að skapa gott fordæmi og nái að flauta svo hátt að við vöknum.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 3. maí)
Það væri eitthvað mikið að ef ég myndi ekki minna á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna" á Útvarpi Sögu sem er í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur að þessu sinni er rithöfundurinn eldklári, Þórarinn Eldjárn.
Hægt er að hlusta á eldri þætti á www.stormsker.net
Bloggar | Breytt 10.5.2008 kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.4.2008 | 05:36
Að geta haft lyst á listarleysi
Fyrir skömmu var mér boðið á Sgt Peppers Bítlatónleika í Háskólabíói. Um var að ræða dæmigerða íslenska eftirhermutónleika með Jóni gróða Ólafs og öllum hans Bítla"vinum." Ég afþakkaði að sjálfsögðu gott boð, einfaldlega vegna þess að ég er Bítlaaðdáandi. Fólki þótti hinsvegar mjög fýsilegt að borga ca 10.000 kall fyrir að horfa á íslenska eftirapa stæla Bítlana í stað þess að hlusta á Bítlana sjálfa inní stofu. Þetta skrípó var flokkað sem menningarviðburður en er allsstaðar í heiminum, nema á Íslandi, flokkað sem tíunda klassa ómenningarviðbjóður og er fluttur á krám og í sirkustjöldum.
Þarna var ekki verið að reyna að túlka eitt eða neitt eða verið að gera hlutina eftir sínu höfði hvað varðar útsetningar og slíkt heldur var einfaldlega verið að reyna að kópíera Bítlanna út í hörgul. Það vill svo til að flutningur Bítlanna er til á plötum og hvað þarf maður þá að vera á lágu plani til að reyna að stæla þá á stórtónleikum og hvað þarf maður að vera á lágu plani til að sækja svona eftirhermuprumphænsnapíp?
Eftirapar
Aðeins einn hópur fólks gerir minni kröfur en íslenskir tónlistareftirapar og það eru íslenskir hlustendur. Þeir klæða sig upp í sitt fínasta púss og hlusta á eftirapana andaktugir í virðulegum tónleikasal.
Þegar ég hugsa um hina gríðarlegu eftirspurn Íslendinga eftir kópíeringaskrani þá get ég ekki annað en tekið undir með Bítlunum: HELP!
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 19. apríl)
Minni svo á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna" á Útvarpi Sögu 99.4 sem er í dag milli 16:00 og 18:00. Gestur þáttarins verður sviðsleikarinn góði og klifurmúsin Árni Tryggvason. Það verður gaman að heyra í þessum skemmtilega "sviðakjamma." Fyrri þætti má finna á www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
9.4.2008 | 06:18
Líkræningjar og grafarsprænar
Í kvöld á að heiðra minningu Villa Vill söngvara enn eina ferðina með því að syngja hann í kaf. Það fær náttúrulega ekkert að heyrast í Villa sjálfum. Það væri of smekklegt. Það verður sungið yfir hans lög. Þetta er svona einsog að heiðra listmálara með því að mála yfir myndirnar hans. Ef tilgangurinn er virkilega að heiðra minningu Villa en ekki að græða peninga á vinsældum hans þá væri bara haldin kvöldvaka þar sem lög Villa væru spiluð í HANS flutningi og myndum af honum varpað uppá tjald af hans ferli. En meinið er að þá væri ekki hægt að selja miðann á 4.900 kr. einsog nú er gert. Þetta er nefnilega gróðadæmi en ekki heiðrun. Hræsni í sinni ömurlegustu mynd. Hverskonar fólk borgar sig inn á svona vibba?
Svo verður þetta endurvinnsludjönk líklega gefið út á plötu til að græða ennþá meira og spilað í tætlur af smekkleysingjum útvarpsstöðvanna og ennþá smekklausari vitleysingar kaupa þetta. (Einsog menn vita þá spila útvarpsstöðvarnar fyrst og fremst nýjustu útgáfur laga hverju sinni því þær sánda svona líka svakalega mikið betur en orginallinn og það virðist vera það eina sem skiptir máli í dag; -að hlutirnir sándi vel þó þeir séu steingeldir). Og eftir situr Villi Vill með sárt ennið, nú eða Haukur Morthens eða Ellý Vilhjálms, nú eða hver sem í hlut á hverju sinni, og heyrast ekki meir í útvarpinu nema á tyllidögum. Það er nefnilega búið að heiðra þau í kaf, - út úr útvarpinu og ofan í veski endurvinnslupopparanna.
Það er ekki verið að heiðra minningu þessara söngvara heldur míga á leiði þeirra og nýta sér vinsældir þeirra í sérgróðaskyni. Þetta er álíka merkilegt og líkrán og grafarspræn. Það er nefnilega gríðarleg eftirspurn eftir eftirhermudrullumeiki á Íslandi. Dapurt.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, laugardaginn 5. apríl)
Að sjálfsögðu minni ég á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna," á Útvarpi Sögu 99.4 milli klukkan 16:00 og 18:00 í dag, miðvikudag. Gestur þáttarins að þessu sinni er söngvarinn ljúfi Bergþór Pálsson. Hann mun vonandi reyna að kenna okkur félögunum borðsiði og mannasiði. Eldri þætti má finna á www.stormsker.net
Bloggar | Breytt 10.4.2008 kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
19.3.2008 | 06:08
Er geðslegt að reyna að geðjast öllum?
This Is My Life er líklega eina íslenska Júrósigurlagið sem fólki virðist fyrirmunað að muna eða raula eftir tíundu hlustun. Virðist ótrúlega auðgleymanlegt lag. Og þó: Menn geta ekki gleymt lagi sem þeir hafa aldrei getað munað.
Íslendingar vilja sko ekki senda aðra Silvíu Nótt í Júróið og ekkert fjandans grín einsog Ha Ha Ha we say Hí Hí Hí. Þeir vilja fólk sem er að taka þátt í þessari grínkeppni af fullri alvöru. Þeir vilja Alvöru volgt flatt óáfengt öl sem engum getur svelgst á.
Einsog smáborgara er háttur þá eru Íslendingar afar viðkvæmir fyrir því hvaða augum umheimurinn lítur þá og vilja fyrir engan mun verða sér til minnkunnar á erlendri grund og blóðroðnuðu því af blygðun þegar Silvía var að fíflast bláedrú á Grikklandi. Sjálfir rúlla þeir flestir sauðdrukknir um bari erlendis öskrandi og ælandi og eru hvarvetna til ama og leiðinda en það finnst þeim ókey vegna þess að þeir eru ekki í sjónvarpinu.
Við kjósum ekki lengur það lag sem okkur sjálfum finnst best heldur það lag sem við höldum að muni falla öllum útlendingum í geð. En sá sem reynir að gera öllum til hæfis gerir engum til hæfis. Við hefðum t.d. aldrei þorað að senda finnsku skrímslin út. Hvað gætu útlendingar haldið um okkur?
Hvort hefði verið betra að senda Mercedes Club út í djóki eða Eurobandið í fullri alvöru? Veit það ekki, en alvaran er nú oft broslegri en grínið.
(Þessi pistill birtist í blaðinu 24 Stundir, 8. mars síðastliðinn)
Ég minni að sjálfsögðu á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna," á Útvarpi Sögu 99.4 milli klukkan 16:00 og 18:00 í dag, miðvikudag. Gestur þáttarins að þessu sinni er rithöfundurinn eitursnjalli Einar Már Guðmundsson. Eldri þætti má nálgast á www.stormsker.net
Bloggar | Breytt 21.3.2008 kl. 02:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
22.2.2008 | 07:44
Afmælisbarnið Davíð Oddsson
Þegar Davíð Oddsson varð fimmtugur 1998 gaf ég honum málverk eftir mig sem ég hafði verið með á málverkasýningu sem ég hélt á Gallerí Borg 1993. Þetta snotra raunsæismálverk er af krullum og aftur krullum og engu nema krullum og ég skírði verkið Loftmynd af Davíð Oddssyni. Með myndinni lét ég fylgja frumsamda huggulega vísu sem var svona:
Honum Dabba er margt og mikið gefið
og margt hann gefur fólki á þessum stað.
Hann hefur munninn fyrir neðan nefið
og nóg af gáfum fyrir aftan það.
Hann hlær að aumum andstæðingaklækjum
og leggur pent á leiði þeirra krans.
Davíð getur greitt úr öllum flækjum
nema þeim sem eru á höfði hans.
Kallinn var svo ánægður með þessa gjöf að hann tókst á loft og ég hélt að hann ætlaði að snappa og fara að gera mig að menntamálaráðherra eða forseta hæstaréttar eða eitthvað svoleiðis. Hef ekki séð hann svona sælan á svip síðan hann missti 5 aukakíló þegar hann fór í klippingu fyrir 30 árum. (Sjá mynd hér að neðan úr Séð og Heyrt)
10 árum eftir að Dabbi varð fimmtugur þá varð hann sextugur og sá atburður gerðist þann 17. janúar síðastliðinn. Hann hélt uppá afmælið sitt í Ráðhúsinu í tjörninni og þar hafði hann myndina góðu uppá vegg til sýnis fyrir veislugesti og talaði fallega um hana í frábærri afmælisræðu sinni. Myndin er svo nákvæm og svo sláandi lík honum að hún er einsog ljósmynd og það kæmi mér ekki á óvart að hann hafi látið smækka hana og notað í ökuskírteinið sitt. Þegar Dabbi var utanríkisráðherra og mikið í útlandinu þá hefur Ástríður kona hans örugglega haft mynd af málverkinu í veskinu sínu til að muna hvernig hann liti út.
Í byrjun þessa árs talaði Dabbi um það í viðtölum að það væri búið að taka úr honum ógrynnin öll af líffærum og það væri ekki mikið eftir nema einhverjar lappir og krullur. Jú og blá hönd. Í fyrstu hélt ég að Atkins kúrinn væri ekki að virka og að þetta væri hans eina raunhæfa leið til að grenna sig en svo áttaði ég mig á að hann hafi verið fárveikur og að þetta hefðu verið svona frekar bráðnauðsynlegar skurðaðgerðir.
Þar sem ég kann ekki við að gera grín að veikindum fólks, því allir geta jú veikst nema Ólafur F. Magnússon, þá ákvað ég að gefa Dabba líffæragjafakort í sextugsafmælisgjöf. Hann ljómaði í framan einsog tungl í fyllingu, líkt og hann hefði verið að hækka stýrivexti. Hann hefði ekki getað orðið hamingjusamari jafnvel þótt Ólafur Ragnar hefði orðið fyrir eldingu.
Hann horfði á líffæragjafakortið og hugsaði líklega með sér: Mikið er þetta hugulsamt af honum Sverri. Hann gefur mér líffæragjafakort þar sem hann býðst til að selja mér líffæri. Hjartnæmt. Það vantar eitthvað mikið í mig, en nú hefur Sverrir reddað því.
Svona var kortið, innrammað og glæsilegt:
Líffæragjafakort til handa Davíð Oddssyni sextugum
Gegn framvísun þessa korts á hvaða spítala sem er getur þú farið fram á að eftirfarandi líffæri verði tekin úr Sverri Stormsker og grædd í þig eða á, gegn vægri þóknun:
Nýra (347.990 kr. með virðisauka)
Lifur, án teljandi skorpu (532.999 kr)
Hrogn (verið að kanna málið)
Heilafrumur (799 kr stykkið meðan byrðir endast)
Hjarta (verið að kanna hvort það sé til staðar)
Tóneyra (439.990 kr stykkið)
Getnaðarlimur (276.990 kr metrinn)
Hönd, helblá og nett (258.990 kr. stykkið. Aðeins tvær eftir)
Heili (39 kr, enda svo gott sem á síðasta snúningi)
Með vinsemd og virðingu,
Sverrir Stormsker
(Segið svo að maður sé ekki góður við vini sína. Fæ kallinn vonandi í viðtal fyrr en seinna í þáttinn okkar Halldórs E á Útvarpi Sögu sem kallast Miðjan. Þar sem ég hef verið spurður soldið mikið um þessa þætti þá má geta þess að gestir fyrri þátta hafa verið Hallgrímur Helgason, Geiri á Goldfinger, Árni Johnsen, Jón Baldinn Hannibalsson og Brunddís Schram og þeir sem hafa misst af þessum þáttum geta nálgast þá á www.stormsker.net).
Bloggar | Breytt 27.2.2008 kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.12.2007 | 12:49
Saga um ástir og örlög
Í húsasundi mættumst við að morgni,
það magnþrungin var ást við þriðju sýn.
Ég kunni enga karlmannlegri siði
en kyssa þig og horfa í augu þín.
Ísinn brast í okkar litlu hjörtum,
ástarblómin rótum skutu í þeim.
Við fundum strax að fengjum við að njótast
þá fjandinn mætti eiga þennan heim.
Sem í draumi dagar bjartir liðu,
við drukkum lífið einsog kampavín,
ólmuðumst og okkur veltum látlaust
uppúr sælustundum líkt og svín.
Allt ég man úr árbók minninganna.
Við ótal sinnum gengum niðrað tjörn
og hugsuðum um hamingjuna okkar
og hvort við skyldum reyna að eignast börn.
Allt var dásemd, dýrðlegt ævintýri,
hver dagur sem við lifðum, satt er það,
en þó bar við að beiskir böðlar reyndu
að breyta okkar kærleikslind í svað.
Já til var mannfólk öfundsjúkt sem sagði
að samband okkar færi í hund og kött
og væri helber öfuguggaháttur
og alveg gjörsamlega útí hött.
Ég trúði þessum mönnum mátulega,
já mikið var ég efins fyrst um sinn.
En þessi orð með hörmulegum hætti
hljóta að hafa greypst í huga þinn,
því stuttu síðar komstu til að kveðja,
eitt kyrrlátt kvöld um miðjan september,
og tjáðir mér með orðum augna þinna
að þú vildir hverfa burt frá mér.
Og síðan hefur sál mín spurul leitað
að svörum um hin döpru endalok.
Aldrei mun ég elska nokkuð framar.
Af öllu hef ég fengið uppí kok.
Ég hugsa um þig alla daga og nætur
og oft ég reika um kynlegt húsasund
miður mín og hræðilega hryggur.
Ég held ég verði að fá mér annan hund.
(Gerði þetta átakanlega ástarkvæði um tvítugt. Birtist í ljóðabók minni Vizkustykki, 1991)
Bloggar | Breytt 14.12.2007 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.12.2007 | 06:30
GJALDMIÐLAR OG AÐRIR SVIKAHRAPPAR
Sýnir, vitranir, draumar, tarrotspil, kristalskúlukellingar, fylgjur, draugar, kaffibollaspámenni, stjörnuspámenni, happagripir, heilun, álfar, tröll, guð, djöfullinn, teskeiðabeygingar, skurðgoð, andalækningar, huldufólk, reiki, orkusteinar, fljúgandi furðuhlutir, talnaspeki, útfrymi, lófalestrarhryssur, miðlar.
Allt eru þetta fyrirbrigði sem trúgirnin þarfnast og gleypir ótuggin í öll mál, fyrirbrigði sem standa afskaplega djúpum rótum í vitsmunalífi heimsins, en þó sérílagi íslensku þjóðarinnar. Reyndar eiga mörg þessara fyrirbrigða það sameiginlegt með vitsmunalífi þjóðarinnar að tilvist þeirra er ekki sönnuð, en það er annað mál.
Töfrasnillingurinn mesti, Harry Houdini, vann fyrir sér á fyrstu árum sínum í galdrabransanum með því að bregða sér í gervi alvöru miðils og setti upp miðilsfundi út um kvappinn og kvippinn og blekkti auðtrúa skrílinn gjörsamlega uppúr bomsunum. Fyrir utan að vera þessi líka svakalega flinki blekkingarmeistari, þ.e.a.s. miðill, þá hafði hann einn kost sem afar sjaldgjæft er að finna hjá dæmigerðum miðlum: Hann var heiðarlegur - strangheiðarlegur blekkingameistari, og því hætti hann fljótlega þessum óleik. Hann sagði seinna: Fólkið var svo brjóstumkennanlegt og svo hrekklaust. Orðsendingar okkar að handan veittu þeim huggun, en það var ósönn huggun, ef það var þá ekki verra. Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Nú myndu margir vitna í Stormsker og segja:
Þegar vesælt viskumegn
veldur sálarfúa
þá er huggun harmi gegn
að hafa á nóg að trúa.
En Houdini var ekki sammála svona steypu. Svo fór að hann fékk alveg uppí kok af þessari glæpsamlegu draugastarfsemi sinni og sneri algerlega við blaðinu. Hann fór á miðlaveiðar. Þessi mesti töframaður allra tíma gerði það að heilagri skyldu sinni að afhjúpa bestu og frægustu miðla samtíðar sinnar, semsé að koma prettvísinni í hendur réttvísinnar. Og hann fór létt með það. Hann kunni jú öll trikkin í bókinni. Flestir þessara afhjúpuðu roðflettu miðla lentu í grjótinu. Houdini varð aðal ghostbuster heimsins; hann kvað niður þessa bölvuðu drauga sem kölluðu sig miðla, ekki bara tíu eða tuttugu, heldur fleiri hundruð, reyndar hvern og einn einasta sem hann komst í tæri við.
Eftir nokkurra ára rannsóknir á dulspekilegum drullusokkum varð hann orðinn svo sannfærður um að ekki finndist EINN ekta miðill á jarðarkringlunni að hann lét þau boð út ganga að hann skildi gefa gríðarlegar fjárhæðir hverjum þeim miðli sem sannað gæti að væri gæddur dulrænum gáfum og lofaði því að hann myndi leika eftir mun betur öll þau fyrirbrigði sem talin væru af andavöldum. Miðlar, sem hafa nú aldrei slegið höndinni á móti auðfengnu fé, streymdu að úr öllum heimshornum til að vinna pottinn, mættu á svæðið með alla sína blístrandi slæðudrauga og óþolandi útfrymi í farteskinu og bjuggu til hressilegan draugang með tilheyrandi húsgagnaskjálfta og röddum að handan og öllu því leiðinda nonsensi. Auðvitað fletti Houdini ofan af öllum þessum hræbillegu andaheimasvikahröppum og berstrípaði þá gjörsamlega og aldrei gekk potturinn út.
Ekki fannst EINN heiðarlegur og sannur miðill í veröldinni.
(Þess má geta að Lára miðill, sem var einn vinsælasti íslenski miðill síðustu aldar, var afhjúpuð sem svikahrappur og játaði hún brot sitt. Þrátt fyrir það flykktist fólk áfram til hennar í hrönnum opinmynnt af undrun, trúgirni og heimsku).
Eftir þessa krossferð Houdinis hurfu draugagangsmiðlar og aðrir útfrymisasnar að mestu af sjónarsviðinu, semsé þessir fjölhæfu töfrabragðamiðlar, eða fjölmiðlar, einsog ég kalla þá. En þarsem miðlastarfsemin gefur vel í aðra hönd, enda um nótulaus viðskipti að ræða, þá hurfu náttúrulega ekki miðlarnir. Þessir gjaldmiðlar breyttu bara um taktík; hættu að nenna að falla í trans og tala tungum og andarnir hættu að nenna að búa til skarkala og færa hluti úr stað á fundum o.s.fr. Ef við vippum okkur yfir til dagsins í dag þá má t.d. finna þessa gæa á útvarpsstöðvum og kallast þeir þá talnaspekingar og útvarpsmiðlar og tala þá fáránlegustu íslensku sem heyrst hefur utan sandkassa. Orðanotkun þessara vafasömu gúrúa ein og sér er næg ástæða til að senda þá rakleitt beint á næsta sambýli. Hér eru dæmi úr nokkrum þáttum:
Er þér illt í öllum tilfinningunum þínum?
Hefurðu orðið fyrir árekstri nýlega?
Hefurðu verið að fást við höfuðverk uppá síðkastið eða í gær?
Streymir venjan um þig að innanverðu?
Mér langar að tengja þig við móðir þína, en samt vill ég frekar tala um faðir þinn, er hann annars ekki alveg örugglega farinn?
Bar hann afi þinn ekki brjóst ömmu þinnar fyrir hagi?
Svona heimspeki, eða heimskuspeki, dýrkar fólk. Það elskar þetta. En takiði eftir því að þessi della, sem ég var að vitna í, er öll í spurningaformi? Blekkingarleikur miðilsins byggist nefnilega á spurningum, að fiska uppúr fólki. Sjálfur segir hann raunverulega ekki neitt heldur hagræðir bulli sínu algerlega eftir viðbrögðum og upplýsingum hins táldregna innhringjara og aðlagar vitleysuna að því sem hann nær að draga uppúr honum. Ef miðillinn röflar einhverja steypu og hittir ekki í mark þá er viðkvæðið alltaf þetta: Mundu þetta. Með þessu móti getur hann alltaf þóst hafa rétt fyrir sér þó hann viti ekkert í sinn haus, og þegar hann kemst ekkert áfram með viðmælanda og nær ekki að toga neitt uppúr honum þá fer hann að tala um neikvæða orku og sambandsleysi; við skulum prófa annan hlustanda.
Eða heldur einhver óbrjálaður maður að útvarpsmiðill gæti nokkurntíma hitt naglann á höfuðið um nokkurn skapaðan hlut ef hann fengi ekki fyrst að heyra í ginningarfíflinu, aldursgreina það og kyngreina það o.s.fr? Að sjálfsögðu ekki. Ef einhver hringdi nú inn og segði ekki orð heldur biði bara eftir fréttum að handan, (og það ætti nú að koma út á eitt ef útvarpsmiðillinn væri ekta), þá yrði miðillinn einnig kjaftstopp. Hann myndi ekki vita hvort kall eða kelling væri á línunni og hvað manneskjan væri gömul og hann færi jafnvel að spyrja ungling hvort hann væri kominn á eftirlaun, eða spyrja einhvern níræðan afa hvort hann væri að æfa ballet og hvort hann væri óléttur, og allt feikið færi í eina allsherjar steik, og ef hann fengi ekkert svar og héldi áfram að láta móðann mása án uppdreginna upplýsinga úr viðmælandanum þá væri hann kominn lengst út á tún innan nokkurra mínútna, jafnvel yfir Esjuna og til tunglsins og marga hringi þar í kring í óendanlegri vitleysu, og hann hefði alveg örugglega ekki kjark til að spyrja í lokin: Ertu sáttur við mig?
Miðill segir einfaldlega aldrei neitt að fyrra bragði, hann endursegir, vinnur úr upplýsingum. Slæmur miðill hefur engan úrvinnslunarhæfileika, enga mannþekkingu, lætur mikilsverð smáatriði fara framhjá sér, er andlegur þykkskinnungur og getur í raun ekki miðlað neinu nema eigin heimsku. Þannig er ástatt um flesta miðla. Góður miðill hinsvegar hlustar eftir fínustu blæbrigðum í röddum fólks, hefur góða ályktunargáfu, næma athygligáfu, er fljótur að kveikja, fljótur að tengja, er naskur í að vinna heildarmynd úr uppgefnum smáatriðum, hefur ríkulegt sálfræðilegt innsæi; veit semsé út á hvað blekkingin gengur.
Ginningarfíflið, þ.e.a.s. innhringjarinn er nær undantekningalaust allur af vilja gerður til að hjálpa miðlinum; er jákvæður og opinn og lætur honum í té allar þær upplýsingar sem hvaða meðalskussi sem er í blekkingarfræðunum ætti að geta unnið úr en samt nær miðillinn undarlega oft að klúðra þessu. Einsog það getur nú verið mikil unun að fylgjast með klárum og vönduðum svikamiðlum að störfum þá er að sama skapi alveg ferlega pínlegt að fylgjast með klunnum og leppalúðum sem kunna ekki trixin og láta endalaust koma sér í bobba.
Í andaheimum miðlanna rekst allt hvert á annars horn. Þeir geta sagst vera komnir í samband við einhverja draugakellingu og haft eftir henni allskonar draumfagrar setningar, algerlega orðrétt, um hvað henni líði nú vel og hvað allt sé nú með miklum blóma í himnaríki og að hún sé umvafin sóleyjum og englasöng og að hún sé hætt að finna til í mjöðminni og að hún hafi ekki myrt einn einasta mann síðan hún kom í ríki drottins o.s.fr., en þegar kemur að því að hún eigi að kreista útúr sér eigið nafn og hvort hún sé amma eða frænka eða langamma viðkomandi ginningarfífls þá virðist hún fara að tafsa alveg gríðarlega og heita annaðhvort Sigríður, Sigrún, Sigurrós, Sigurlína, Sigurvíma, Sig-eitthvað, og svo þarf að fara að fiska uppúr ættmennisginningarasnanum á símalínunni hvað hún heiti og hvort um sé að ræða ömmu hans, langömmu, fóstru gömlu, frænku eða eitthvað þaðan af verra. Alltaf þegar kemur að einföldum grundvallaratriðum viðkomandi draugnum, svosem nafni hans, starfi í lifanda lífi og ættartengslum við símafíflið þá verður allt voðalega loðið og sambandið við andaheiminn mjög slæmt. Ekki einn einasti útvarpsmiðill á jarðarkringlunni getur sagt skýrt og skorinort við innhringjara eitthvað á þessa leið, og haft rétt fyrir sér:
Ég nenni ekki að þykjast þurfa að tengja þig við einhverja manneskju eða tengja þig hingað og þangað. Það er einfaldlega komin hérna geysi hugguleg afturganga og hún segist vera langamma þín og heita Þórkatla Tíbrá Kristjánsdóttir, fyrrum til heimilis að Rassgötu 6 á Höfn í Hornyfirði, og engar refjar með það neitt. Ég þarf ekkert að veiða uppúr þér með lúmskum spurningum við hvað hún starfaði því hún er að segja mér að hún hafi unnið fyrir sér sem vörubílstjóri og skipamella. Hún hafi haft vel í sig og á, segir hún, þrátt fyrir mikinn starfsleiða, því hún hafi í raun verið í skápnum sem trukkalessa bróðurpart lífs síns, allt þar til hún tók í lappirnar á syni sínum, sem þá var um fimmtugt, og barði bónda sinn í hel með honum. Þá hafi hún komið útúr skápnum og byrjað með dvergvaxinni tattúveraðri netagerðarlessu. Þetta stemmir allt er það ekki? Ertu sáttur við mig? Gott. Takk takk takk.
Nei svona vafningalausar upplýsingar hvað varðar (óalgeng) nöfn og staðsetningar og slíkt getur enginn miðill veitt, því þegar kemur að beinhörðum staðreyndum að fyrra bragði þá fer sambandið að dofna og miðillinn að heyra gasalega illa, en eftir að hann hefur dregið einhverja vofu úr innhringjaranum með spurningaflóði þá getur hann hinsvegar haft orðrétt eftir henni ýmis nauðaómerkileg almenn skilaboð, t.d. að sér líði alveg gasalega vel og allt sé í gúdí fíling og að hún hafi ekkert merkilegra við tímann að gera í himnaríki en að fylgjast grannt með sinni jarðnesku famelíu og hún segi að barnabarn sitt þurfi að hætta að greiða svona mikið á sér hárið og snúast svona mikið í kringum sjálft sig og bla bla bla og bull bull bull. Þetta er hreint út sagt grátlega vitlaust.
Skilaboðin að handan eru að sjálfsögðu aldrei merkilegri en miðillinn. Þó hann segist þurfa að tengja innhringjarann við þetta og hitt, tengja hann við hina og þessa persónu, tengja hann útá land og tengja og tengja þessi líka reiðinnar býsn; tengja framhjá og tengja allt við alla og tengja alla við hitt og þetta út og suður einsog ofvirkur rafvirki, þá tengir hann aldrei eitt eða neitt. Hann bara tengir ekki. Það vantar einfaldlega alla tengingu í hann. Hann fær bara straum, - en alltaf að vísu voðalega jákvæðan straum. Jafnvel þó hann sé allur skaðbrenndur og flæktur í snúrunum þá er allt alveg obboslega jákvætt og gott. En afhverju tengja hlustendur ekki? Er virkilega ekki kominn tími til að tengja?
Svona gæti dæmigert samtal verið milli útvarpsmiðils og miðlatrúmanns:
- Trúirðu á svona?
- Já, ég hlusta alltaf á þig.
- Ég líka. En hver er Guðmundur? Farinn.
- Jaaaa....nú veit ég ekki...Hm...Nei veistu, ég þekki bara hreinlega engan með þessu nafni þótt ótrúlegt megi virðast. Þú verður bara að fyrirge...
- Það kemur strax hérna vestfjarðarbær, einhver þoka, vestfirðir, eitthvað fyrir vestan. Hvern þekkirðu fyrir vestan sem er farinn? Ekki jarðneskur.
- Ég þekki nú bara engan fyrir vestan.
- Jú víst.
- Neiiii, ég kannast ekki við...
- Jú, jújú, hár maður, hár eftir vexti, stór miðað við stærð. Ég þarf að tengja þig þarna á vestfirðina, vestfjarðarkjálkann, og ég þarf að tengja við tenginguna þarna fyrir vestan. Skilurðu Þetta?
- Nei, allt mitt fólk býr í Texas.
- Takk. Texas er fyrir vestan. Kannski ekki alveg á vestfjörðum en þú skilur hvað ég á við...Veistu, það er voðalega gott að tala við þig. Þú hefur svo mikið og jákvætt orkustreymi í tilfinningunum þínum. En segðu mér...segðu mér...segðu mér með þetta Texas. Er einhver hár maður þar? Grannur? Í köflóttri skyrtu?
- Já, en ekki í köflóttri skyrtu.
- Í hverju var hann þá?
- Hann var í fangelsi.
- Takk takk takk takk. Það er allt voðalega jákvætt og gott í kringum hann og honum líður voðalega vel. Nú brosir hann.
- Já en hann er ennþá lifandi. Hann fer í rafmagnsstólinn í næstu viku.
- (Þögn) ...Gott. Þá er hann nú svo gott sem dauður. En hver er Gunna? Guðrún, Gunnhildur, Guðríður eða Guð-eitthvað, Guðminn almáttugur, hárið á henni er gráhært og það er eitthvað að henni í hnénu. Hún er með svona hné. Ég þarf að tengja tengja tengja tengja þig alveg gríðarlega mikið við hnéð á henni. Það er svona einsog hún sé svona með eitthvað í hnénu, liðamót eða eitthvað. Það þarf að kíkja eitthvað á það.
- Ja afi haltraði soldið og hann hét einmitt Gunnlaugur.
- Takk takk. Konan hans kallaði hann einmitt Gunnu eftir að hún hafði séð hann að neðan. Hann biður voðalega vel að heilsa. Sendir dúndur stuðkveðjur til allra sem voru með honum á Bindindismótinu í Galtarlæk 1957.
- Jájá.
- Segðu mér, dóu afi þinn og amma ekki barnlaus? Áttu þau einhver börn?
- Jú, veistu, ég held að þau hafi átt einhver börn.
- Nei. Nei, þau áttu engin börn. Mundu bara hvað ég sagði. Ertu sátt við mig?
- Já, alveg obboslega.
- Það er gott, guð veri með þér vina mín. Og láttu þér líða vel í tilfinningunum þínum. Og hugsaðu meira um sjálfan þig. Þú getur ekki elskað aðra ef þú getur ekki elskast með sjálfri þér og þú getur ekki elskað aðra en sjálfa þig ef þú skilur hvað ég er að fara. Get aldrei munað þennan frasa. En mundu: Hugsaðu um sjálfa þig. (Hugsar sjálfur: Það geri ÉG. Annars væri ég ekki að vinna við að blóðmjólka trúgjarna vanvita og hræra í tilfinningum syrgjenda og gefa læknisfræðileg ráð og beygja hegningarlög um fjársvik).
- Ertu sátt við mig?
- Já, alveg gríðarlega sátt.
- "Guð veri með þér."
Ég spyr: Hver getur verið sáttur við svona píp? Hverskonar fólk trúir á svona rugl? Hverskonar draugar eru það eiginlega sem trúa á miðla? Fyrir utan náttúrulega að þessir gjaldmiðlar hanga utaní 253. grein almennra hegningarlaga en þar stendur að noti maður sér bágindi annars manns, einfeldni hans og fákunnáttu í gróðaskyni þá varði það fangelsi allt að tveimur árum, með vaselíni og júgursmyrsli og alle græer.
Útvarpsmiðlarnir enda yfirleitt þætti sína á guðsorði: "Guð sé með ykkur," eða "Guð blessi ykkur," eða "Gangið á guðs vegum" og stundum er jafnvel endað á seiðandi bæn með svæfandi tónlist í bakgrunni til að undirstrika að allt sé þetta nú gert með samþykki almættisins. En hvað skyldi Guð sjálfur segja um kukl og andaheimatengingar hverskonar? Í riti Drottins, Biblíunni, sem allir vilja ólmir láta kenna ungviðinu í skólum landsins, segir hinn umburðarlyndi og kærleiksríki Herra:
Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.
Svo mælir Drottinn. Þetta stendur orðrétt í Heilagri Ritningu, bók bókanna sem er grundvöllur þess "kristilega siðgæðis" sem við viljum fyrir alla muni boða í grunnskólum landsins. Miðlar og spákonur og þessháttar fólk er ekki beint efst á vinsældarlistanum hjá þeim gamla. Þar sem mér er illa við ofbeldi, enda trúlítill maður, þá get ég ekki samsinnt þessum fyrirmælum Drottins allsHerjar, en ég endurtek það sem Houdini sagði, heiðarlegi töframaðurinn sem mest vit hafði á miðlum og þeirra blekkingaraðferðum. Hann sagði, einsog áður sagði: Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Þetta er rétt hjá honum. Og menn mega ekki við því að bíða alvarlegt tjón á sálu sinni vegna þess að fólk sem trúir öllum hlutum og á alla hluti í blindni hlýtur að hafa beðið alvarlegt tjón á heila sínum.
Enda hér á Heilræðastöku sem ég gerði þegar ég var 17 ára og birtist í ljóðabók minni Kveðið í kútnum, 1982:
Blindri trú á eitthvað áttu að neita,
ef að þú ert sannfærður þú staðnar,
heimskan vex, þú hættir fljótt að leita,
hugsun skýr og rökrétt óðum hjaðnar.
Þetta er ekki þvaður vanhugsað,
þú mátt vera sannfærður um það.
(Skrifað árið 2002)
Bloggar | Breytt 8.12.2007 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
4.12.2007 | 02:14
Mannlífsviðtal um blogg
Í nýjasta hefti Mannlífs sem kom út fyrir stuttu er viðtal við mig um bloggið. Læt það vaða hér enda viðeigandi að birta viðtal um blogg á blogginu:
1. Búseta? Þar sem mér dettur í hug að búa hverju sinni. Heimurinn.
2. Hvernig tölva? Lítil ferköntuð sem hægt er að loka einsog skjalatösku, man ekki hvað hún heitir, Anal eða Ass-eitthvað, Assus eða Rassmus.
3. Áhugamál? Tónlist, billjard, heimspeki, textagerð, skrítnir og framandi staðir, bíómyndir, leikhús, handritagerð, krossgátur, sérkennilegar týpur, trúarbrögð, töfrabrögð, dulspeki, sálfræði, mannkynssaga, stjórnmál, ljóðlist, stjörnufræði, stangveiði, golf, borðtennis, kokkamennska, djók, skáldsögur, seinni heimsstyrjöldin, hraður tæknilegur fótbolti, spakmælaritun, badminton, mafían í USA á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar, auglýsingasálfræði, nýyrðasmíði, tennis, hundar, arkitektúr. Ekkert endilega í þessari röð.
4. Hver ertu? Einhverskonar einkennilegur hrærigrautur af öllum áhugamálum mínum og fleiru.
5. Hvaðan? Vesturbænum í Reykjavík.
6. Hvenær byrjaðirðu að blogga? 18. október síðastliðinn.
7. Hvers vegna bloggarðu? Ætlaði fyrst bara að birta eina vísu og búið en svo kom upp þetta mál með hommana og kirkjuna og mér fannst svo yfirnáttúrulega galið af hommum að vilja gifta sig í kirkju þess guðs sem er með yfirlýst ógeð á þeim samkvæmt Biblíunni að mér fannst ég verða að reyna að koma einhverri glóru í þessa umræðu. Svo hélt ég bara áfram að blogga en geri það náttúrulega bara þegar ég nenni því. Þetta er engin skylda eða kvöð.
8. Hvenær bloggarðu á sólarhringnum? Þegar ég er vakandi, semsé á næturna.
9. Hve löngum tíma eyðirðu í bloggið? Misjafnt. Pistlarnir mínir eru yfirleitt í lengra lagi því ég vil klára nokkurnveginn alveg það sem ég vil segja um hvert mál svo ég þurfi ekki að útskýra það frekar. Svara helst aldrei athugasemdum því ég hef séð á öðrum síðum hvað ofskýringar geta verið tímafrekar. Ákvað að sleppa slíku helst alveg. Ég vil ekki að skrifa örlitla pistla um ekki neitt fyrir fólk sem nennir hvorki að lesa né hugsa og þurfa síðan að útskýra það í löngum þrætum hvað ég var að reyna að segja. Það er semsé ekki af hroka heldur tímaskorti að ég svara helst engum.
10. Heldurðu að netlögga sé nauðsynleg? Ég held að pappalögga sé nauðsynlegri. Ég hélt að við værum að reyna að komast útúr kommúnismanum, ekki dýpra inní hann. Kínverjar dýrka svona gáttaþefsstarfsemi og ganga lengra og lengra í ruglinu. Þetta er í raun svo galin hugmynd að Svíar hljóta að taka hana upp. Síðan Íslendingar. Svo Vestmannaeyjingar.
11. Halda vinsældir bloggsins? Það finnst mér líklegt. Íslendingar hætta aldrei að hafa gaman af því að þræta og þjarka og dylgja og drulla yfir náungann. Ef maður skrifar t.d. um óþurft nagladekkja eða eitthvað svoleiðis þá gæti maður átt von á því að fá þau rök í athugasemdum að heyrst hafi að maður sé dópsali og hryðjuverkamaður. En þarna eru svo líka oft mjög áhugaverðar málefnalegar greinar klárra náunga og ólík sjónarmið sem vegast á og svo eru þarna þráhyggjusjúklingar, samsæriskenningasmiðir, trúarofstækishallelújahopparar og allskonar furðulegir frauðfroskar og svo náttúrulega fólkið sem er ekki rónni fyrr en maður er með það á hreinu hvað það fékk sér í morgunverð, alveg upp á korn. Semsé öll flóran. Bloggið er skrifleg Þjóðarsál. En miðað við hvað það eru ótrúlega margir illa skrifandi þarna þá finnst mér skrítið að einhver málverndunarfasisti skyldi ekki hafa lagt það til á degi íslenskrar tungu að banna bloggið gjörsamlega.
12. Hver er næsta bylting í tölvuheiminum? Tölva sem maður getur sett eitt A4 blað í og prentað beint á það og ef maður gerir vitleysu þá gæti maður þurrkað vitleysuna út með tippexi og prentað svo aftur réttu stafina ofan í. Svona nýjung myndi örugglega rjúka út.
13. Hvers vegna Moggabloggið? Hvers vegna ekki?
14. Hve lengi heldurðu að þú endist í að blogga? Ég er ekkert að hugsa um það meðan ég er að blogga, ekki frekar en að ég er alltaf að hugsa um það hvenær ég muni nú hætta að hugsa þegar ég er að hugsa. Gæti þessvegna misst áhugann á þessu á morgun og hætt. Finnst það reyndar mjög líklegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.11.2007 | 06:11
Íþróttamenn - hommar - sama (tó)pakkið!!
Ég hef soldið verið að hugsa um íþróttir upp á síðkastið af einhverjum ástæðum. Einkennilegt nokk, því það er náttúrulega bara eitt bjálfalegra en að hugsa um íþróttir og það er að iðka þær. En ég hef komist að þokkalegri niðurstöðu og hún er þessi: Menn þurfa að vera verulega kinky og einkennilegir í hugsun til að sjá ekki að íþróttir eru lítið annað en dulbúið kynlíf og að íþróttamenn eru raknir hommar upp til hópa. Það er ekki bara að kynlíf sé íþrótt heldur eru íþróttir kynlíf. Frjálsar íþróttir frjálsar ástir eitt og hið sama. Þetta byrjar á forskólaaldri í köðlunum í leikfimisalnum og þróast svo uppí tæknilegra og ennþá dulbúnara sex. Íþróttir sökka en sumar sökka meira en aðrar. Það er til íþrótt sem sökkar svo svakalega að hún er einfaldlega kölluð sucker. (Stundum skrifað soccer). Skrítið að ferðast með Fokker til að fara að horfa á sucker.
En kíkjum aðeins á þetta. Rugby á tildæmis að heita gasalega karlmannleg íþrótt en er þegar betur er að gáð ekkert annað en hreinn hommaskapur, ef það er á annað borð hægt að tala um hreinan hommaskap. Rugby tottar feitt. Afhverju þarf alltaf einhver asni að glenna út á sér rassgatið og dilla því einsog gulrót framan í samherja sína í upphafi hverrar lotu? Og þegar einn apaköttur er felldur í grasið afhverju þurfa þá allir hinir að koma æðandi í sínum aðskornu rassborunáttbuxum og kasta sér ofan á hann þangað til þetta verður einsog mauraþúfa? Síðan hvenær hefur þurft 10 menn til að halda einum niðri? Aldrei. En það þarf auðvitað fleiri en tvo í hópsex. Þetta alltsaman verður fyrst skiljanlegt í ljósi þess að þarna eru spólgraðir hommar á ferð. Þegar maður fattar það þá segir maður í uppgötvunartóni við sjálfan sig: Jááá, auðvitað, þetta eru svona hommadindlar. Hvernig læt ég. Afhverju fara ekki fleiri en bara 10 uppá hann? Hverskonar væsklar eru þetta? Jááá, auðvitað. Þetta eru hommar.
Box þykir sömuleiðis alveg gríðarlega karlmannleg íþrótt en er þó lítið annað en dulbúinn hommaskapur. Hvað er hommalegra en 2 sveittir massaðir bjánar í stuttbuxum og faðmlögum? Getur einhver sagt mér það? Alltaf að vingsa höndunum óvart undir beltisstað. Ekkert vafasamt, neinei. Stundum eru heilu leikirnir ekkert annað en faðmlög og kjass og káf og eyrnanart. Sumir boxarar koma útúr hringnum (hringinum einsog Bubbi segir) með fleiri sogbletti en kjaftshögg. Ægilega karlmannlegt. Það er nú meira. Þetta eru hommar. (Annað mál: Boxhringurinn er eini hringurinn sem er ferhyrndur). Lýsingar Ómars Ragnarssonar á Sýn eru dæmigerðar fyrir andann sem svífur yfir vötnum:
Hann er alveg svakalega fallegur þessi. NEI, sjáiði brjóstkassann á honum. Vááááá! Það er ekki til arða af fitu á skrokknum á honum. Og lærin maður! Sjáiði lærin maður! Hann hlýtur að vera með rosalega stinnan rass líka. Ég er kominn með bóner. Haldiði að það væri ekki dúndur að fá að taka þennan í fjósið? VÁÁÁ!
Á þessum nótum eru lýsingar hans. Hann er að lýsa boxi en þó fyrst og fremst eigin kynórum. Box er fyrir kellingar, karlkyns kellingar. Það er ekki flóknara en það.
Hafnarbolti. Í þessari íþróttagrein fer augljósasta viðreynsluaðferðin fram. Leikmennirnir klóra sér án afláts í hreðjunum allan tímann meðan á leiknum og þeim sjálfum stendur og þarafleiðandi má gera gera ráð fyrir að þeir klóri sér ennþá meira í kakóinu að sturtu lokinni ef dæmið gengur upp. Semsé: Drullupumpuíþrótt út í gegn.
Ballet getur varla talist íþrótt og þaðanafsíður listgrein en flestir geta ímyndað sér hverskonar týpur sækja í þetta pungbindasprikl. Smá hint fyrir andlega öryrkja: Þeir sem ekki eru sundlaugaverðir, flugþjónar eða hárgreiðslumenn eru í ballet. Einhverju nær?
En höldum okkur við alvarlegar íþróttagreinar. Glíma. Það er nú eitt. Hommaskapur í öllum sínum náttfötum. Tveir spýtukallar að nugga lærunum uppvið punginn hvor á öðrum. Aumkunarvert og fíflalegt í senn. Og hvor um sig reynir að leggja hinn flatan. Allan tímann eru þessir asnar að toga í belti hvors annars einsog þeir eigi í gríðarlegum erfiðleikum með að halda buxunum uppum sig og það er auðvitað asnalegt og bælt í ljósi þess að maður veit að þeirra æðsta ósk er að vera með allt niðrum sig. Það er eitthvað stirðbusalegt og beljulegt við þennan dulbúna hommaskap enda séríslenskt fyrirbrigði. Þetta er svona viðreynsla framsóknarhommans. Ekki hægt að horfa edrú á þessa vitleysu.
Ekki frekar en júdó, sem verður að teljast einhver ömurlegasta hommaíþrótt í heimi. Meiraðsegja Gunnar á Krossinum gæti ekki afhommað júdókappana og þá er nú fokið í flest skjól. Það er vægast sagt frekar dasað að horfa á karlmenn veltast um gólf í grenjandi greddu og losta undir því yfirskini að hér sé um merkilega íþrótt að ræða. Munurinn á þessu rugli og leðjuslag er að leðjuna vantar. Það er allt og sumt. Þetta er ekkert annað en pjúra pornó. Soft pornó að vísu en pornó engu að síður. Hommapornó. Þetta er kattliðugt pakk sem getur komið sér í fáránlegustu stellingar, getur vafið löppunum marga hringi utanum háls andstæðingsins (gólffélagans) einsog eiturslöngur þannig að klofið nemi við smettið á honum. Svo er honum haldið þannig föstum í nokkurn tíma og alveg örugglega hvíslað frygðarlega í eyrað á honum á meðan: Finnst þér þetta gott? Fyrir svona sexshow eru menn að fá medalíur á Ólympíuleikum. Ef það er ekki svartur blettur á vestrænni siðmenningu þá er ég Sóley Tóma eða Kolrugluð Halldórsdóttir. Þessir delar eru yfirleitt hvítklæddir og það er náttúrulega bara til þess að tryggja að það sjáist örugglega ekki þegar þeir fá úr´onum.
Fleiri íþróttagreinar má nefna. Tildæmis sund. Hvað er sund annað en átylla fyrir perverta til að fara í sturtu með fólki af sama kyni. Þeir þora ekki að spyrja manninn á götunni beint: Hvað segirðu, þú ert með ansi ræktarlega bringu eigum við kannski að koma í sturtu saman? og þessvegna fara þeir í laugarnar og fóðra þar sitt óeðli undir yfirskini sundáhuga. Þetta sjá nú allir menn.
Handbolti er sömuleiðis svo augljós hommaíþrótt að það tekur því varla að nefna hana. Fylgist bara með hreyfingunum en þó aðallega þreifingunum í vörninni. Maður gæti haldið að þeir ynnu allir hjá Fróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna. Þessi íþrótt ber sannarlega nafn með rentu: Handballs. Viðurstyggð.
En ekki er fótboltinn skárri. Fótbolti er þvílíkur grenjandi öfuguggaháttur að það er leitun að öðru eins svínaríi á þessum hnetti. Menn eru fyrst og fremst í fótbolta til þess að stjúka rassinn á samherjum sínum þegar þeir hafa skorað. Þarf að ræða það eitthvað frekar? Stundum eru þessir kúkalabbar orðnir svo kynferðislega æstir þegar ekkert mark hefur verið skorað í langan tíma að loksins þegar einhver setur hann inn, semsé boltann í netið, þá ráðast þeir á hann slefandi og leggja hann flatan á jörðina og fara að kyssa hann og kjassa og strjúka hann allan hátt og lágt og riðlast á honum í hópum einsog kanínur. Það eru engar kanónur í fótbolta einsog íþróttafréttamenn eru svo gjarnir að klifa á heldur eingöngu kanínur. Hommakanínur. Og hvað er það fyrsta sem asnasparkari gerir þegar hann er búinn að skora? Jú, hann rífur sig úr skyrtunni í tryllingslegum ástarbríma til að gera snertingarnar nánari þegar félagarnir skutla sér á hann. Þetta ber allt að sama brund...brunni. Þegar andstæðingurinn á aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig þá safna þeir sér þétt saman og halda um slátrið á sér. Hálfvitar. Þeir eru ekki að passa á sér hausinn. Nei, þeir þurfa ekkert á honum að halda í fótbolta. En slátrið þurfa þeir að vera með í lagi ef þeir eiga að geta fengið eitthvað kikk útúr leiknum. Þessir asnasparkarar eru allirsaman saurþjöppur fram í fingurgóma og ættu að fara í lögformlegt umhverfismat.
Það má undrun sæta að sjálft Ríkissjónvarpið, sem dembir yfir okkur ótrúlega svæsnum spænskum dökkbláum myndum allar helgar, árið um kring, einsog t.d. Forrest Cunt og Hrafninn sýgur, skuli í þokkabót ausa íþróttaóhroða yfir "blá"saklaus börnin og það um hábjartan og blábjartan dag. Ég, sem góður og gegn skattborgari, ímynd siðgæðis og tandurhreins hugarfars, ætla að ganga í Vinstri Grænbláa og fara fram á það við Ríkissjónvarpið (Bláskjá) að það hætti tafarlaust að sýna þessar viðbjóðslegu sportklámmyndir. Látum ekki klámið ríða okkur - á slig.
Rokrassgatið kveður.
(Skrifað árið 2000)
Bloggar | Breytt 1.12.2007 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
27.11.2007 | 13:13
Kærleikurinn
Kristur sagði: "Sannur kærleikurinn
sálunni lyftir.
Án kærleika eruð þér útskúfaðir delar,
eilífð sviptir.
Án kærleika eruð þér vítis furðufuglar
fjaðraklipptir."
Hví skapaði drottinn minnst af því sem mestu
máli skiptir?
(Úr ljóðabók minni "Með ósk um bjarta framtíð," 1997)
Bloggar | Breytt 29.11.2007 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
22.11.2007 | 10:54
RÁÐHERFA
Ég sting hér með uppá orðinu ráðherfa fyrir öfgafemínur sem geta ekki með nokkru móti sætt sig við starfsheitið ráðherra.
Fyrir nokkrum árum gaf ég út frumsamda nýyrðabók þarsem ég lék mér að því að gefa þekktum orðum nýja merkingu jafnframt því að smíða ný. Minnir að ég hafi t.d. notað orðið senditík yfir sendiherra og orðið flygill yfir flugmenn og orðið bíldælingur yfir afgreiðslumann á bensínstöð og orðið andlitsdráttur yfir munnmök og orðið VitGrannir þýddi Vinstri Grænir. Þetta var náttúrulega allt hugsað sem djók, ekki "uppnefni," - vildi teygja aðeins á tungunni, fara í sleik við íslenska tungu, taka orðin á orðinu. Fjölmörg nýyrðanna náðu að festast í málinu og er það vel. Man ekki hvað ég kallaði ráðherra eða alþingismenn. Get birt úrdrátt úr þessari bók við tækifæri ef ég nenni því. Allavega gerði ég 1 stykki málshátt um yfirvaldið sem birtist í málsháttabók sem ég gerði og hann var svona: Betra er að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn. Dettur þessi málsháttur oft í hug þegar ég hlusta á þá.
Þegar Steinunn Valdís var borgarstjóri þá talaði hún aldrei um sig sem borgarstýru af einhverjum ástæðum, líklegast þótti henni það ekki nógu virðulegt, en núna vill hún að tekið verði upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geti borið. Kannski er við hæfi að þessi tillaga hennar komi upp núna því það eru ekki margir klukkutímar síðan ný femínísk biblíuþýðing leit ljós dagsins þar sem alfaðirinn almóðirin var leiðrétt og systrum troðið við hliðina á bræðrum og karlkyni breytt í hvorugkyn þar sem því var viðkomið til að bókin yrði á máli beggja kynja og til að guð myndi ekki móðga femínur.
Karlar hafa hingaðtil ekki viljað láta kalla sig frúr, meyjur, freyjur, konur og mæður o.s.fr. og hafa verið snöggir að breyta starfsheitum sem bera slíkar endingar þegar þeir hafa farið í kvennadjobb án þess að hafa farið fram á hina femínísku geldingu tungumálsins að Bæði kynin verði að geta borið starfsheitin einsog Steinunn fer fram á. Þeir kallast t.d. ekki flugfreyjur heldur flugþjónar og flugþjóar, ekki skúringakellingar heldur ræstitæknar eða tuskubellir, ekki vændiskonur heldur gígalóar (gígalókar) o.s.fr. Enginn karl myndi segja aðspurður um starfsheiti: Ég er súludansmey heldur myndi hann segja stoltur: Ég? Ég er strippari, nú eða: Ég er tippari, nú eða: Ég er punglingur.
Ég get þessvegna vel skilið að konur vilji ekki láta kalla sig herra, jafnvel þó þær hafi gert allt til að líkjast þeim; farið að ganga í buxum, ganga í jakkafötum, klippt hár sitt stutt og eiginlega gert allt nema að láta sér vaxa tippi. Það vantaði bara að þær vildu láta kalla sig herra, þannig að ég er í bland svolítið hissa á þessu.
Ef konum finnst svona niðurlægjandi að vera titlaðar ráðherrar og vilja kalla sig eitthvað annað, einsog t.d. ráðfreyjur, ráðstýrur, ráðynjur, ráðfrúr, ráðskonur, óráðskonur nú eða ráðherfur, þá bara gera þær það. Það er enginn sem bannar þeim það, ekki frekar en nokkur bannaði þeim að kalla sig þingkonur. Nú ef að breytingar þeirra ná fótfestu í tungumálinu þá er það gott og blessað. Tíminn er besti dómarinn. Þær þurfa ekki að hlaupa upp til handa og fóta og setja allt á annan endann með stjórnarskrárbreytingum og lagabreytingum og ráða og nefndaskipunum og einhverju svakalegu ekkisens pípi, og þær þurfa allsekki að reyna að þvinga karla til að breyta sínu starfsheiti sem er einfaldlega ráðherra. Varla vilja femínur ráða starfsheitum karla líka? Jú greinilega. Ætti að vinnast þeim létt úr því þær náðu að gelda "orð guðs" (gauðs).
Tungumálið á að fá að þróast áreynslulaust án þvinganna, reglugerða, valdboða, femínisma og fasisma. Einfalt mál.
Margrét Pála skólastjóri Braggabarna, eða hvað hann heitir nú þessi kynskipti leikskóli hennar, vildi allsekki bera karlkyns starfsheitið skólastjóri og tók upp á því að kalla sig skólastýru, sem er bara hið besta mál. Það þurfti ekkert húllumhæ í kringum það - það þurfti ekkert að kveikja á kertum eða slátra geit eða að breyta stjórnarskránni eða lögum eða einu eða neinu, - bara starfsheitinu. Og núna líður henni miklu betur og kemst í mun nánari snertingu við konuna í sér og lifir mun betra Móðurlífi og allir eru gasalega happy. Þetta eiga náttúrulega konur að gera sem fíla Kurt Russel afturábak.
Enginn hefði bannað Steinunni að kalla sig borgarstýru á sínum tíma ef hún hefði kært sig um. Ef kvenkyns leigubílstjóra hryllir við því að kallast leigubílstjóri og vill fyrir alla muni kalla sig leigubílstýru þá bara gerir hún það. Hún þarf ekkert að kalla til einhverja töframenn og sverðgleypa. Ef einhver karlkyns ljósmóðir er með niðurgang af áhyggjum yfir starfsheiti sínu þá þarf hann ekki annað en að kalla sig ljósfaðir eða ljósálf eða whatever og málið er dautt. Ef einhver kvenkyns asni vill ekki fyrir nokkurn mun láta titla sig asna í símaskránni heldur ösnu þá er það ekki vandamálið. No problem.
En hversvegna nær þessi tillaga Steinunnar aðeins yfir æðstu stöður, yfirstéttarstöður, tignarstöður svosem ráðherra og sendiherra en ekki venjuleg valdalaus almúgastörf svo sem strætóbílstjóra og skipamellur? Eru tengslin alltaf að minnka og minnka við raunveruleikann og við það fólk sem hún starfar í umboði fyrir? Varla þyrfti að eyða tíma þingsins og breyta stjórnarskránni og lögum ef kvenkyns strætóbílstjórar vildu kalla sig strætóbílstýrur.
Tungumálið finnur sér farveg án valdboðs. Alltaf best að leyfa vatninu að renna niður í móti.
Þessi þingsályktunartillaga Steinunnar og félaga kemur auðvitað nokkrum áratugum of seint einsog við var að búast, því starfsheitið ráðherra er nefnilega orðið gjörsamlega rótgróið í málinu sem kynlaust orð í hugum þokkalega heilbrigðs fólks sem hugsar ekki alla skapaða og óskapaða hluti útfrá femínískum kynjaþrætubókarfræðum, enda hefur engum kvenkyns ráðherra dottið í hug að amast yfir þessu heldur lagt því meiri áherslu á að sinna starfi sínu einsog maður kona.
Vigdís Finnbogadóttir fór t.d. ekki á taugum yfir því að vera titluð forseti en ekki forseta. Hún var reyndar stundum ávörpuð frú forseti sem var svolítið einkennilegt en hún fór ekki fram á að vera ávörpuð frú forseta, líklegast vegna þess að það hefur minnt of mikið á orðið klósettseta.
(Annars er orðið for-seti náskylt orðinu klósettseti í grunninn að því leiti að þar gæti verið um einhvern að ræða sem situr í for, - semsé í djúpum skít).
Ingibjörg Sólrún hefur heldur ekki kvartað mikið yfir því að kallast forMaður Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís og aðrar öfgafemínur vilja líklegast kalla hana forynju Samfylkingarinnar og þá bara gera þær það. Ekki málið.
Steinunn Valdís er svolítið seinheppin í þessu vafstri sínu vegna þess að hún misskilur orðið ráðherra nánast fullkomlega. Ef við gefum okkur að konur (að femínistum undanskyldum) séu samþykkar því að þær tilheyri ekki bara kvenkyninu heldur mannkyninu og þoli jafnvel að láta kalla sig menn, þá er það nú svo að orðið ráðherra merkir ekki karl heldur einfaldlega yfirmaður / yfirkona, yfirvald, boss, þ.e.a.s. manneskja sem fer með vald ráðuneytis. Ekki mjög flókið. Því væri auðveldlega hægt að segja ef Steinunn væri yfirvald: "Hún Steinunn er minn herra," þ.e.a.s. hún fer með húsbóndavaldið. (Ekki húsbóndakonuvaldið). Ég trúi ekki að það þurfi einhvern Einstein til að skilja þetta.
Þegar talað er um herraþjóð þá er ekki átt við þjóð sem karlar einir tilheyra, heldur valdaþjóð, drottnandi, leiðandi yfirvaldsþjóð, aðal mambóið.
Svo má nefna að Herranótt (leikhátíð M.R) er ekki eingöngu ætluð körlum heldur báðum kynjum, semsé mönnum. (Skrítið að femínur skulu ekki vera búnar að breyta þessu í Frúanótt).
Ef að orðið herra þýddi eingöngu karl þá væri ekkert til sem héti herramaður. Eða hefur einhver heyrt orðið frúkona? Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu að nota orðið herrakona í merkingunni valdakona þó það kunni að virðast skrítið við fyrstu sýn.
Steinunn getur því alveg sofið rótt og sleppt því að sólunda peningum skattborgara og mikilvægum tíma í að skipa nefndir og ráð og óráð til að finna nýtt gasalega fínt virðulegt starfsheiti ráðherra sem bæði kyn geti borið. Þetta orð er nefnilega til nú þegar og það er orðið: Ráðherra.
Ég segi einsog Pétur Jóhann Sigfússon í Næturvaktinni: Þarf að ræða þetta eitthvað frekar...?
Já, það virðist vera. Þetta virðist vera eitthvað svakalega flókið.
Þar sem ég veit að femínur neita að skilja þetta og munu halda áfram að berja hnetunni við steininn þá sting ég semsé hér með uppá orðinu ráðherfa. Miðað við allt dellumeikið í VitGrönnum og öðrum harðlínufemínum þá kæmi mér ekki á óvart að þetta orð verði framvegis notað yfir kvenráðherra: Ráðherfa.
Sem er eiginlega synd því að orðið ráðherra er alveg fyrirtaks starfsheiti sem bæði kynin ættu að geta borið með reisn, ef hún væri til staðar.
Virðum MÓÐURmálið.
Herramaðurinn kveður.
Bloggar | Breytt 24.11.2007 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (129)
21.11.2007 | 10:34
Homo Aliens
um lítið veit hann mest.
Blóðugur upp að öxlum
um allar jarðir hann berst
og friði - einsog sést.
Verður fráleitt fullnægt
fyrren veröldin ferst.
Að fjölyrð´um frelsarans boðskap
fer´onum allra verst.
Hnefi er merki mannsins,
merkið sem þekkir hann gerst.
Framtíðin felst í dauða,
sú fjárfesting þykir best.
minniháttar pest.
Þá-fyrst reynir á þroskann
þegar í odda skerst.
Bróðurþelið þrýtur
þegar á reynir mest.
lítinn gálgafrest.
Börnin fæðast blóðug
og blóðug deyja þau flest.
(Úr ljóðabók minni Með ósk um bjarta framtíð, 1997)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)